Dýrasjúkdómar

108. fundur
Föstudaginn 12. febrúar 1993, kl. 11:48:31 (5045)

     Landbúnaðarráðherra (Halldór Blöndal) :
    Hæstv. forseti. Út af ummælum hv. 1. þm. Norðurl. v. vil ég fyrst taka fram að auðvitað er laukrétt hjá honum að lög eru ekki trygging fyrir því að nægilega vel sé hugað að sjúkdómavörnum. Ég er fullkomlega sammála honum um það. Það veltur á framkvæmdinni og hún verður að sjálfsögðu erfiðari eftir því sem viðskipti og ferðir verða greiðari milli landa og flutningar og viðskipti meiri. Þess vegna er nauðsynlegt að vera mjög vel á verði að þessu leyti varðandi sjúkdómavarnir.
    Ég skal ekki segja hvað sé eðlilegt að kalla búfé. Ég þykist hafa tekið eftir því í auglýsingum að gullfiskar og jafnvel slöngur séu kölluð gæludýr og hænsn fiðurfé. Með hliðsjón af slíkri orðnotkun get ég vel fellt mig við að eldisfiskur sé búfé. Í lagaskilningi skiptir auðvitað mestu að skýrt sé um hvað lögin fjalla og til hvers þau taka.
    Ég vil minnast á annað. Hér er upptalning á búfé og þar eru kanínur ekki felldar undir loðdýr. Þó eru ullarkanínur í skilgreiningu annarra laga kölluð loðdýr svo hér hlýtur að vera átt við kanínur til átu en ekki til framleiðslu á ull.
    Það sem segir í a-lið 10. gr., þar sem talað er um innflutning á hráum og lítt söltuðum sláturafurðum, hef ég skilið svo að þar sé verið að tala um þær vörutegundir sem helst sé smithætta af. Ég hef ekki treyst mér í viðræður eða umræður við yfirdýralækni um þá hluti. En þessi málsgrein breytir að sjálfsögðu engu um að óheimilt er að flytja inn sláturafurðir til landsins og breytir samningurinn um hið Evrópska efnahagssvæði engu um það. Að sjálfsögðu kemur þetta til athugunar í landbn. og ég hef engar skoðanir fyrir fram í þeim efnum.