Búnaðarfræðsla

108. fundur
Föstudaginn 12. febrúar 1993, kl. 12:16:54 (5056)

     Jón Helgason :
    Hæstv. forseti. Ég vil fyrst og fremst taka undir það sem hv. 1. þm. Norðurl. v. sagði hér um þetta frv. Ég held að það sé ákaflega óheppilegur tími nú að fara að taka upp skólagjöld á nemendur í þessum skólum. Við sjáum á fylgiskjali með frv. að þarna er um töluverðar upphæðir að ræða þar sem Bændaskólinn á Hvanneyri á að afla 800 þús. kr. og Bændaskólinn á Hólum 600 þús. kr. og Garðyrkjuskóli ríkisins 600 þús. kr. Þetta er kannski ekki mjög hátt hlutfall af heildarkostnaði nemenda við námið en hann leggst þá ofan á það sem áreiðanlega er sumum ekki allt of auðvelt að greiða eins og aðstæður eru núna. En við vitum að það er mikið öryggisleysi í þróun landbúnaðar hér á landi, þ.e. hvernig hann muni þróast á næstu árum og kannski því ekki allt of mikill áhugi á að afla sér náms í þessari atvinnugrein. Því er það ákaflega slæmt að setja svona gjald á við þær aðstæður til viðbótar við þá upphæð sem þarna er greidd. Ég held að það hafi mjög neikvæð áhrif fyrir nemendur að það skuli vera talinn sérstakur gjaldstofn fyrir ríkissjóð að innheimta skólagjald frá þeim.
    Ég held að við þessar aðstæður þurfi miklu frekar að reyna að ýta undir ungt fólk að afla sér þekkingar í þessari atvinnugrein þannig að það rætist frekar sem við viljum vissulega trúa að það muni birta fljótt aftur hjá þessum atvinnuvegi. Þá er auðvitað grundvallaratriði að hafa næga þekkingu á hvernig þar á að haga störfum svo árangurinn verði sem bestur.
    Gjaldið af búvélunum er auðvitað einn liður í skattlagningu á atvinnuveginn. Miðað við þær umræður sem fram hafa farið, m.a. GATT-umræðurnar, þá finnst mér að þarna sé farið í algerlega öfuga átt. Samkvæmt þeim drögum sem liggja fyrir í GATT-viðræðunum þá er takmarkað hvað ríkið má greiða af beinum greiðslum til landbúnaðar. Hins vegar eru þar engar skorður settar við því hvað má styðja að rannsókna- og þróunarstarfi. Því stefnir það sem sagt í öfuga átt ef hér á að íþyngja atvinnuveginum með þessum hætti. Því það er rétt sem hér kom fram hjá hæstv. ráðherra og hv. 1. þm. Norðurl. v. að rannsókna- og þróunarstarfsemi er mjög mikilvæg fyrir alla atvinnuvegi og ekki síst fyrir landbúnaðinn. Núna stendur t.d. yfir ráðunautafundur Búnaðarfélags Íslands og Rannsóknastofnunar landbúnaðarins og þar hafa verið haldin mjög mörg fróðleg erindi, m.a. um rannsóknir á heyverkun sem sýnir það hversu þar er um álitlega aðferð að ræða fyrir okkar aðstæður en jafnframt hversu mikilvægt það er að þar sé staðið rétt að verki því það getur skipt algjörlega sköpum um það hversu hagkvæmt þetta er fyrir búið.