Upplýsingabréf fjármálaráðherra

109. fundur
Þriðjudaginn 16. febrúar 1993, kl. 14:02:46 (5129)

     Kristín Einarsdóttir :
    Frú forseti. Ég ætla að beina máli mínu til hæstv. fjmrh.
    Mér barst í morgun í hendur plagg, sem sjálfsagt fleiri hafa fengið, sem heitir ,,Aðgerðir gegn atvinnuleysi. Upplýsingabréf fjármálaráðherra. Febrúar 1993.``
    Þegar farið er að glugga í bréfið sést fljótlega að þetta er áróðursbæklingur sem er fyrst og fremst til að afsaka aðgerðir ríkisstjórnarinnar og árásir hennar á almenning í landinu. Það kemur satt að segja nokkuð á óvart að sjá þetta, sérstaklega í ljósi þess að fyrir síðustu kosningar gaf þáv. fjmrh. út ýmiss konar áróðursbæklinga sem voru gagnrýndir í þingsölum, m.a. af sjálfstæðismönnum ef ég man rétt.
    Ég velti því þess vegna fyrir mér hverjum bæklingurinn er ætlaður, hvað hann er gefinn út í stóru upplagi og hvað hann hafi kostað. Á fyrstu síðu kemur fram að þetta sé fyrsta tölublað. Getum við því búist við fleiri slíkum áróðursbæklingum? ( ÖS: Fær hann dagblaðsstyrk?) Það er spurning hvort hann fái dagblaðsstyrk, ég tek undir þá spurningu frá formanni þingflokks Alþfl. Er þetta byrjunin á baráttu Sjálfstfl. fyrir næstu kosningar?