Aðild Alþingis að 50 ára afmæli lýðveldisins

109. fundur
Þriðjudaginn 16. febrúar 1993, kl. 14:33:13 (5144)

     Svavar Gestsson (um atkvæðagreiðslu) :
    Virðulegi forseti. Ég vil lýsa fullri andstöðu minni við það að vísa þessu máli til allshn. Þetta er ekkert allsherjarnefndarmál. Hér er verið að fjalla um það hvernig Alþingi ákveður að eiga aðild að 50 ára afmæli íslenska lýðveldisins. Eini aðilinn sem fyrir hönd Alþingis getur fjallað um svona mál á milli funda, þó með óformlegum hætti sé, er auðvitað forsætisnefnd. Þó ekki sé gert ráð fyrir því að málinu sé vísað til hennar á forsætisnefnd auðvitað að fjalla um það.
    Ég get út af fyrir sig sagt ýmislegt um það en mér finnst að forsætisnefnd hefði átt að hafa frumkvæði að því að flytja svona mál. Fyrst hún gerði það ekki á þingmaður auðvitað rétt á því að gera það og þingmaðurinn hlýtur líka að eiga rétt á því að óska eftir því að forsætisnefndin fjalli um málið.
    Ég hef rætt það við hæstv. forseta bæði úr ræðustól og annars staðar og hæstv. forseti hefur tekið því vel. Ég tel það mikilvægt í málinu. Ég tel það fullkomlega skothent að vísa þessu máli til einnar af starfsnefndum þingsins, jafnvel þó það sé hin virðulega allshn. sem mér sýnist í seinni tíð eigi að taka við eiginlega öllu sem lagt er til í þessari virðulegu stofnun.