Vegáætlun 1993--1996

109. fundur
Þriðjudaginn 16. febrúar 1993, kl. 16:18:45 (5172)

     Egill Jónsson :
    Virðulegi forseti. Það hefur nú komið fram í umræðunni að það væri ekki að ófyrirséðu þó að þingmenn létu í ljós skoðanir sínar og áhuga þegar málefni af þessum toga eru rædd hér á Alþingi. Það er að sjálfsögðu vísara heldur en frá þurfi að segja að fá mál eru mikilvægari fyrir fólkið í þessu landi, ég

tala nú ekki um fólkið úti á landsbyggðinni, en umbætur í vegamálum. Og þótt mikið hafi áunnist í þeim efnum á síðustu árum, þá er eins og þessi mál séu alltaf jafnbrýn.
    Hér hafa menn rætt vítt og breitt um þá vegáætlun sem til meðferðar er að þessu sinni, endurskoðun á fjögurra ára áætlun sem afgreidd var hér á Alþingi árið 1991. Samkvæmt því sem ég get lagt mat á, þá sýnist mér að það liggi fyrir tvær afar mikilvægar niðurstöður í vegamálum á grundvelli þessarar vegáætlunar. Sú fyrri er að vegáætlun frá árinu 1991, eins og hún var þá afgreidd, bjartsýn vegáætlun afgreidd hér á Alþingi nær að ganga fram í öllum meginatriðum. Ég hygg að það dyljist engum þingmanni sem hefur starfað hér um einhver ár á Alþingi að venjulega hefur endurskoðun á fjögurra ára áætlun leitt til þess að það hafi þurft að draga úr vegaframkvæmdum gagnstætt því sem nú er.
    Önnur mikilvæg niðurstaða fæst líka við gerð þessarar áætlunar og hún er sú að það sér fyrir að hringveginum verði lokað á allra næstu árum með vel uppbornum vegum og á þá lagt bundið slitlag. Ég geri ráð fyrir því að þegar hv. alþm. hafa farið yfir þessi mál í kjördæmahópunum, þá verði mönnum þetta mætavel ljóst.
    Nú er það þannig að það er að sjálfsögðu mikið af vegum utan hringvegarins og ekki skal ég draga úr þörfinni fyrir umbótum á þeim vegum, en það vill svo til að þegar horft er til kjördæmanna sem eiga hlutdeild í hringveginum, Suðurland, Vesturland, Norðurlandskjördæmin bæði og Austurland, þá stendur langmest út af í Austurlandskjördæmi. Innan örfárra ára virðist mér að það verði búið að leggja bundið slitlag á hringveginn nema í Austurlandskjördæmi og reyndar einnig austast á Norðurl. e. Það er alveg augljóst mál að þær áherslur sem hafa komið inn í þessa umræðu með hinu svokallaða viðbótarfjármagni taka að nokkru mið af þessum staðreyndum. Og afar fljótt á litið, án þess að ég hafi nú farið í gegnum það mál ítarlega, þá sýnist mér jafnvel að hlutur Austurlandskjördæmis sé a.m.k. síst verri, kannski er hann betri heldur en annarra kjördæma að þessu leyti. Ástæðan er sú að þetta óskaplega umdeilda verkefni, bygging brúar á Jökulsá á Dal, er fjármagnað að stórum hluta til af Stórverkefnasjóði eins og sú framkvæmd á rétt til. Og það er vissulega kaldhæðni örlaganna í þessari umræðu, og sýnir nú hvernig mál af þessum toga geta spunnist, að þetta er þessi umdeilda framkvæmd í Austurlandskjördæmi.
    Nú er það svo að þingmenn Austurl. hafa enn ekki farið yfir drög að nýrri vegáætlun nema mjög lausleg drög sem þeim var afhent, mig minnir 17. nóv. sl. og þá sem trúnaðarmál. Þau voru það ófullkomin að þau voru ekki tæk til umræðu, t.d. í kjördæminu, en samkvæmt þeim og við samlestur á þeim og gildandi vegáætlun, þeirri vegáætlun sem verið er að fjalla hér um, þá sýnist mér að nær öll verkefni í kjördæminu muni geta gengið fram og þar að auki þær áherslur í vegamálum sem viðbótarfjármagnið gerir ráð fyrir. Fyrir mér, síðan ég kom á þing, er þetta grundvallarbreyting frá því sem verið hefur í þessum málum, alger grundvallarbreyting í þá veru að styrkja og auka vegaframkvæmdir í Austurlandskjördæmi. Og ég satt að segja trúi því nú ekki þegar menn fara að líta á þessi mál í betra næði (Forseti hringir.) að menn komist ekki að þeirri niðurstöðu hvað þessi áætlun er einmitt mikilvæg fyrir Austurland og fyrir Norðurl. e. --- Og nú sé ég að hv. 1. þm. Norðurl. e. skrifar mikið. (Forseti hringir.) Ég skal ljúka hér máli mínu, virðulegi forseti.
    Ég vil aðeins taka það fram í þessu sambandi að lántaka er ekki nýlunda og mér finnst ástæða til að það komi hér skýrt fram í þessari umræðu að það hefur verið fallið frá lántöku til Vestfjarðaganganna upp á 600--700 millj. þannig að það verður náttúrlega að draga þá lánsheimild frá því sem hér er gert ráð fyrir. Og að síðustu, virðulegi forseti, vil ég taka það skýrt fram að ég ber fulla ábyrgð á þeirri ákvörðun (Forseti hringir.) sem ríkisstjórnin tók við skiptingu þessa viðbótarfjármagns og ég get með engum hætti sætt mig við það að þar sé verið að átelja samgrh. einan og ég hygg að það sé eins með hinn stjórnarþingmanninn af Austurlandi að þessi ákvörðun hafi verið gerð að hans vitorði.