Skipulags- og byggingarlög

113. fundur
Mánudaginn 22. febrúar 1993, kl. 14:37:21 (5338)

     Ingibjörg Sólrún Gísladóttir (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Það er auðvitað karp um keisarans skegg að vera að ræða það hér hvort það hafi verið hávær minni hluti sem mótmælti ráðhúsbyggingunni. Þá gengur ráðherra væntanlega út frá því að minni hluti Reykvíkinga hafi verið á móti ráðhúsbyggingunni. Um það skulum við ekkert vera að deila núna. Við vitum hins vegar að það söfnuðust 12 þús. undirskriftir í Reykjavík, ef ég man rétt. Ef einhver ákvæði væru í lögum um að það þyrfti tiltekið lágmark til þess að fá t.d. kosið um slíkt mál væri réttur íbúanna tryggður. Ég dreg ekkert í efa að ákvörðun var tekin af til þess bærum yfirvöldum með réttum hætti. En það sem mér finnst vanta í frv. vegna þess að áður þurfti staðfestingu ráðherra og þá gat fólk leitað til ráðherra og til skipulagsstjórnar ríkisins en samkvæmt frv. nú er búið að leggja hana af. Ég vil bara tryggja að einhver áfrýjunaraðili geti sagt til um hvort hagsmunir íbúa eru fyrir borð bornir eða ekki. Auðvitað verður alltaf einhver að taka ákvörðun og það verða að vera til þess bær yfirvöld í hverju tilviki. En það þarf að tryggja að réttur íbúanna, þeirra mál, fái þá vandaða og góða umfjöllun og þeir eigi alltaf annað stig til þess að leita til.