Fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri

114. fundur
Þriðjudaginn 23. febrúar 1993, kl. 16:32:09 (5369)

     Kristín Ástgeirsdóttir :
    Virðulegi forseti. Ég get ekki látið hjá líða að fara nokkrum orðum um málið sem er á dagskrá. Ég á sæti í þeirri nefnd sem mun fá málið til umfjöllunar og því ekki ástæða til að fara um það mörgum orðum. Hér er um það að ræða að með frv. eins og þessu er verið að horfast í augu við þann veruleika sem samningurinn um Evrópskt efnahagssvæði felur í sér því að þrátt fyrir þær takmarkanir sem í því er að finna varðandi erlenda fjárfestingu er verið að opna fyrir fjárfestingar íbúa hins Evrópska efnahagssvæðis í ýmsum greinum.
    Það sem mig langaði einkum til að koma inn á, virðulegi forseti, er einfaldlega sú athugasemd að við erum lítil þjóð í stóru landi og okkar land býður upp á ýmiss konar fjárfestingarmöguleika, bæði fyrir innlenda og erlenda aðila þótt okkur hafi gengið misjafnlega að nýta þá möguleika eins og raun ber vitni. Það sem mér finnst mikilvægast í þessu máli er fyrst og fremst það að við Íslendingar höfum stjórn á erlendum fjárfestingum í okkar landi. Ég er í sjálfu sér hlynnt því að fá erlent fjármagn inn í landið, bæði sem áhættufjármagn og einnig að erlendir aðilar hafi heimildir til að koma inn í ýmiss konar atvinnurekstur svo lengi sem við höfum stjórn á þeim fjárfestingum. Það er mikilvægast að við höfum stjórn á þessum erlendu fjárfestingum.
    Þær spurningar sem vakna varðandi þá opnun sem hér er verið að leggja til eru auðvitað hvort við erum með þessu að missa þá stjórn úr okkar höndum. Ég vildi gjarnan heyra mat hæstv. viðskrh. á því hvað þetta þýðir í raun og veru. Hafa menn eitthvað spáð í hvers er að vænta? Hvað þýðir þetta? Ég ímynda mér að erlendir aðilar hafi fyrst og fremst áhuga á því að fjárfesta hér í því sem snýr að útgerð. Þeir hefðu eflaust líka áhuga á því að fjárfesta í ýmiss konar orkuvinnslu en hér er enn þá lokað fyrir það. Ég get líka ímyndað mér að erlendir aðilar hefðu áhuga á því að fjárfesta hér í ferðaþjónustu því að þrátt fyrir allt felur okkar atvinnulíf í sér margvíslega möguleika í ferðaþjónustu. Það er kannski einkum þar sem er að vænta erlendra fjárfestinga og spurningin er: Verður hún stjórnlaus, ef svo má segja, eða hvernig ætlum við að halda á málum? Ég veit að það er öryggisákvæði í þessu frv. en spurningin er hvort þau ná til greinar eins og ferðaþjónustu. Telst það einhvers konar ógnun við öryggið?
    Ég vil endurtaka að ég sé í sjálfu sér ekkert að því að við fáum hingað erlenda aðila með fjármagn. Í ferðaþjónustunni skortir mjög á að við getum byggt hana upp með viðunandi hætti. Þar vantar fjármagn til þess að nýta alla þá möguleika sem við eigum. En mér finnst það skipta máli, virðulegi forseti, að við höfum stjórn á þessu.
    Þessu vildi ég koma á framfæri og setja kannski í spurningarform það sem fram kom í máli síðasta ræðumanns: Er með þessu frv. verið að ganga eins skammt og hægt er eða er hægt að hafa þessa opnun eitthvað minni? Ég beini þeirri spurningu til hæstv. viðskrh. en við munum að sjálfsögðu athuga það mál í efh.- og viðskn.
    Ég minni á það að nýlega kom fram í fréttum að þeir foringjar sem fara fyrir tvíhöfða nefndinni sem fjallar um breytingar á þeim lögum sem gilda um sjávarútveginn hafa nefnt að það væri æskilegt að opna sjávarútveginn fyrir erlendum fjárfestingum og það vanti fé inn í íslenskan sjávarútveg. Auðvitað getur maður tekið undir að það vantar fé inn í þann iðnað. Hér kemur nú annar hluti hins tvíhöfða . . .   ( Gripið fram í: Þurs.) Ég ætla ekki að nota það orð heldur forustu þessarar nefndar. Hann gekk í salinn og væri fróðlegt að hann skýrði fyrir okkur hvað þeir eru að hugsa varðandi erlendar fjárfestingar í íslenskum sjávarútvegi því að það er greinilegt að þau sjónarmið eru komin upp að það beri að leyfa fjárfestingar í íslenskum sjávarútvegi. Þetta eru allt saman mjög stórar spurningar. Það vakna stórar spurningar um það hvernig við ætlum að reka okkar atvinnulíf og byggja það áfram upp. Getum við það án þess að fá erlent fjármagn eða getum við það ekki?
    En ég ítreka að það sem mér finnst mikilvægt er að við höfum stjórn á erlendum fjárfestingum og göngum ekki lengra en við þurfum og förum af mikilli gát í þessum efnum eins og öðrum því að við megum ekki gleyma því að við erum lítið þjóðfélag með okkar sérstöku menningu og við höfum ekki leyfi til þess að glutra henni niður með óvarlegum ákvörðunum.