Heilbrigðismál

115. fundur
Miðvikudaginn 24. febrúar 1993, kl. 14:09:45 (5392)

     Finnur Ingólfsson :
    Virðulegi forseti. Stefna ríkisstjórnar Davíðs Oddssonar í heilbrigðismálum hefur einkennst af handahófskenndum vinnubrögðum, vanhugsuðum og illa undirbúnum aðgerðum og samráðsleysi við heilbrigðisstéttirnar sem skapað hefur vantraust milli ríkisstjórnarinnar og þessara stétta.
    Þessar fullyrðingar sem hér koma fram eru ekki komnar frá mér, ég hins vegar tek undir þær heils hugar. Þetta eru fullyrðingar sem birst hafa í fjölmiðlum á undanförnum dögum og vikum frá þeim sem þurfa á aðstoð heilbrigðisþjónustunnar að halda, frá þeim sem vinna í heilbrigðisþjónustunni og þeim sem best eiga til að þekkja í þessum málaflokki eins og hæstv. forsrh.
    Hæstv. forsrh. lýsti því yfir á fundi sjálfstæðismanna hér í Reykjavík fyrir skömmu að aðgerðir ríkisstjórnarinnar í heilbrigðismálum væru handahófskenndar. Þetta er auðvitað þungur áfellisdómur yfir verkum heilbrrh. og þetta er þungur áfellisdómur yfir verkum eigin ríkisstjórnar. Þó hefur nú Morgunblaðið sem sérstakur málsvari þessarar ríkisstjórnar gengið lengst í þessum efnum því að í Reykjavíkurbréfi Morgunblaðsins 7. febr. sl. segir að það sé tímabært að segja það tæpitungulaust að eitt af þeim vandamálum sem við sé að etja í umbótastarfi í heilbrigðiskerfinu sé einfaldlega það að núv. hæstv. heilbrrh. hefur haft lag á því að espa þjóðina upp með öllum þeim breytingum sem nauðsynlegt er að gera í stað þess að laða þjóðina til fylgis við þær. Morgunblaðið segir síðan í þessu sama Reykjavíkurbréfi:
    ,,Sá stjórnmálamaður sem ekki hefur tilfinningu fyrir því hvað sé mögulegt og hvað ekki nær ekki miklum árangri í starfi og á ekkert erindi í stjórnmál. Það kemur sennilega skýrast fram munurinn á stefnu núv. ríkisstjórnar og þeirrar fyrri þegar við skoðum heilbrigðismálin ef við lítum fram hjá atvinnumálunum.``
    Þá lagði Framsfl., þ.e. í fyrri ríkisstjórn, höfuðáherslu á að taka á ýmsum skipulagsvanda sem við blasti í heilbrigðiskerfinu. Eins og að lækka álagningu á lyf og draga þannig úr tekjum lyfsalanna, eins og að taka á launahækkunum og tekjuhækkunum sem var stjórnlaus hjá sérfræðingunum og lækka það með skipulögðum hætti og sérstökum samningi. Hjá sérfræðingum sem hafa mörg hundruð þúsund á mánuði í laun umfram það sem þeir hafa í föstu starfi inni á stofnunum sem þeir eru í vinnu á. En Framsfl. lagði áherslu á að hlífa þeim sjúku, öryrkjum og gamalmennum með því að auka ekki álögurnar á þennan hóp. Heilbrrh. Alþfl. --- Jafnaðarmannaflokks Íslands, státar nú af miklum sparnaði sem orðið hefur í heilbrigðismálum. Staðreyndin er hins vegar sú að sáralítill raunverulegur sparnaður hefur þar náðst. Útgjöld sjúkratrygginga hafa lækkað vegna þess að skattar hafa verið hækkaðir á öryrkjum, á ellilífeyrisþegum og á sjúklingunum. Þetta er gert eftir því sem hæstv. heilbrrh. segir til að auka kostnaðarvitund þessa hóps. En um leið hefur heilbrrh. fundið sig knúinn til þess að halda sérstökum hlífiskildi yfir lyfsölunum sem eru tekjuhæsta stétt þessa lands og hefur allt upp í 1.600 þús. kr. í mánaðartekjur samkvæmt upplýsingum sem fram koma í Frjálsri verslun. Hann heldur hlífiskildi yfir tannréttingasérfræðingunum sem eru með allt upp í 1,4 millj. á mánuði og sérfræðingunum sem vinna inni á stofnunum og hafa hundruð þús. kr. á mánuði. Mismunurinn á áherslu þessarar ríkisstjórnar og hinnar fyrri hefur auðvitað verið staðfestur.
    Þegar Framsfl. fór með yfirstjórn heilbrigðismálanna þá geystist hver sérfræðingurinn á fætur öðrum, lyfsalinn og tannréttingasérfræðingurinn fram á ritvöllin og fagfélög þessara sömu aðila voru með ályktanir um allt það sem ætti að gera og stæði til að gera í heilbrigðiskerfinu til breytinga mundi brjóta heilbrigðiskerfið niður. Núna bregður hins vegar svo við að það heyrist ekkert til þessa hóps. Þessum hópum finnst ekki einu sinni taka því að fara í vörn fyrir skjólstæðinga sína. Nú geta hátekjustéttirnar í heilbrigðiskerfinu verið öruggar um sinn hag undir verndarvæng heilbrigðisráðherra. Nú heyrum við hins vegar í Þjóðarsálinni dag eftir dag í ellilífeyrisþegum og öryrkjum sem eru að leysa út lyfin sín og hafa ekki efni á því, geta það ekki. Við heyrum líka í sjúklingum sem þurfa að sækja læknisþjónustu sérfræðinga og greiðslugetunni er þar svo ofboðið að margir hverjir verða að hverfa frá. Ég spyr því hæstv. heilbrrh. hvort þetta séu þeir hópar í þjóðfélaginu sem helst þarf að vekja kostnaðarvitund hjá. Eru þeir ekki einhvers staðar annars staðar heldur en einmitt þarna? Í gærkvöldi kom það fram í Ríkissjónvarpinu á fundi Alþfl. á Hótel Sögu að hæstv. heilbrrh. sagði að hann hefði gert mörg og ýmiss konar mistök á sinni tíð. Þetta er nokkur breyting frá því sem áður hefur verið þar sem því hefur alltaf verið haldið fram að það hafi hvergi nokkurs staðar orðið mistök í framkvæmd allra þeirra reglugerða og lagabreytinga sem um hefur verið talað og hafa verið settar. En ráðherrann sagði um leið: Það þarf kjarkmikinn mann til að viðurkenna að þessi mistök hafi átt sér stað. Ég held hins vegar að það þurfi engan kjarkmann til að viðurkenna ef menn gera mistök. En látum það nú liggja milli hluta. Hitt skiptir auðvitað miklu meira máli hvort menn eru þá tilbúnir til þess að gera breytingar ef menn viðurkenna að það sem þeir hafa verið að gera séu mistök.
    Hæstv. heilbrrh. hefur haldið því fram að sparnaður í lyfjaútgjöldum sé upp á 1.300 millj. kr., 1.100 millj. hafi sparast í sjúkratryggingunum og 200 millj. hafi verið lagðar í auknar álögur á sjúklinga. Þetta er rangt og þarf ekki að hafa um það fleiri orð vegna þess að í Morgunblaðinu föstudaginn 29. jan. 1993 staðfestir heilbrrh. sjálfur með þeim tölum sem þar koma fram að þessar fullyrðingar hans eru rangar. Sparnaðurinn hefur orðið, ef tölur hæstv. ráðherra eru notaðar, á bilinu 700--800 millj. kr. frá því í maí 1991 til ársloka 1992. En sjúklingarnir hafa verið látnir bera 300 millj. kr. af þessu á þessum sama tíma. Fyrir utan það að þær forsendur sem eru gefnar við þennan útreikning hjá hæstv. ráðherra eru auðvitað mjög hæpnar, að ganga út frá því að vöxturinn geti orðið allt upp í 13% milli ára án þess að neitt sé að gert. Þannig að forsendurnar eru hæpnar og barnalegar. En grundvöllurinn að raunverulegum sparnaði var lagður í lyfjaútgjöldunum í tíð fyrrv. heilbrrh. Guðmundar Bjarnasonar þar sem læknar og sjúklingar voru hvattir til að nota ódýrustu lyfin --- læknarnir til að ávísa og sjúklingarnir til að nota þau --- með því að setja upp svokallaðan bestukaupalista þar sem bestu kjör voru. Það var farið að skila verulegum árangri. Með því að lækka prósentuálagninguna bæði í heildsölu og smásölu hjá lyfsölunum. Þetta sparaði 400--500 millj. kr. Þá var sjúklingunum hlíft en nú þegar Alþfl. tók við þessu ráðuneyti var ákveðið að leggja lyfjaskatt á sjúklinga. Ef við tökum tímabilið frá miðju ári 1991 til ársloka 1993 og göngum út frá því að spár séu réttar sem gert er ráð fyrir að lyfjakostnaður muni verða á þessu ári þá er --- notum tölur hæstv. ráðherra --- gert ráð fyrir að lyfjakostnaður sé 550 millj. kr. Ef við notum hins vegar tölur sem ég fékk uppgefnar í morgun frá Alþýðusambandi Íslands þá er þarna um 750 millj. kr. álögur að ræða á þennan hóp. Eru þetta, hæstv. ráðherra, þær umbætur sem Alþfl. --- Jafnaðarmannaflokkur Íslands, er nú að boða á sínum fundum um landið, umbætur til almannaheilla?
    Það væri hægt að taka mörg einstök dæmi, sláandi dæmi. Hér ætla ég að nefna eitt. Fjörutíu og átta ára karlmaður, þriggja barna faðir, sem hefur verið óvinnufær síðan í júlí 1992 hefur í sjúkradagpeninga á mánuði 28.560 kr. Hann þarf að greiða vegna blóðfitulyfja, sem breyting varð á við síðustu reglugerð, 8.400 kr. á mánuði. Önnur lyf sem hann þarf að hafa vegna ýmissa kvilla kosta 4.900 kr., hann þarf að heimsækja sérfræðing tvisvar í mánuði, það kostar 4.300 kr. Til viðbótar þessu hafa útgjöld hans vegna breytinga á tannlækningum aukist um 2.300 kr. á mánuði á þau þrjú börn sem þessi maður á. Þessi maður hefur 8.860 kr. til að lifa af þegar lyfjaskattur og sjúklingaskattur þessarar ríkisstjórnar fyrir þennan mann hefur verið greiddur. 8.860 kr. hefur þessi maður til að lifa af með þrjú börn. Hann þarf að fara í aðgerð hjá sérfræðingi í maí að talið er, það mun kosta 8.150 kr. en kostaði áður 3.000 kr. Ég spyr hæstv. ráðherra: Telur hæstv. ráðherra það nauðsynlegt að grípa til frekari aðgerða gagnvart þessum manni til að vekja upp kostnaðarvitund hjá honum? Telur hæstv. ráðherra að það sé nauðsynlegt? Ef svo er ekki þá spyr ég ráðherrann: Hefur hann kjark til að viðurkenna að þarna hafi orðið mistök? Og hefur hann vilja til að gera breytingar sem þarf til að koma til móts við þennan mann og þann stóra hóp sem nákvæmlega er eins ástatt um og hér hefur verið tekið dæmi af? En lyfsalarnir fá áfram tæp 60% í álagningu í smásölunni með því að rétta yfir búðarborðið lyfjaafgreiðslurnar eftir lyfseðlum læknanna. Þetta hefur hins vegar farið lækkandi á undanförnum árum. Því spyr ég hæstv. ráðherra: Hvenær kemur frv. um breytt skipulag lyfjasölu og lyfjadreifingar inn á þing sem hæstv. ráðherra lofaði að kæmi mjög fljótlega, það var í júní 1991? Það hafa verið gerðar fimm breytingar á einu og sömu reglugerðinni sem sett var um mitt ár 1991. Þá var kominn hvati til þess hjá læknum að ávísa jafnan á ódýrasta lyfið. Það hefur nú hins vegar gjörbreyst vegna þess að það er búið að setja gólf, það er búið að setja sérstakt gólf þar sem lágmarksgjald er greitt, sem þýðir það að það dregur úr þessum hvata. Útgjöldin munu aukast við þessa breytinu. Þetta er enn ein staðfesting þess að þær aðgerðir og þær fullyrðingar sem hér voru settar fram í upphafi um að aðgerðir hæstv. ráðherra séu vanhugsaðar og illa undirbúnar. Það mætti nefna mýmörg önnur dæmi.
    Eitt dæmi vil ég taka enn, raunverulegt, og það er vegna þeirra breytinga sem nú er verið að gera á reglugerðinni um sérfræðilæknishjálp. Námsmaður, ung stúlka í námi í háskólanum, einstæð móðir með eitt barn þurfti að fara með barnið í aðgerð hjá sérfræðingi til að taka úr því kirtla og setja rör í bæði eyru. Kostnaðurinn hefði verið fyrir reglugerðarbreytinguna 3.000 kr. fyrir þessa einstæðu móður en eftir breytinguna þurfti hún að leggja út 5.100 kr. Það er 70% hækkun. Þessi stúlka fékk engin námslán og fær engin námslán vegna þess að barnið var veikt allan desembermánuð og hún hafði engin tök á að sækja námið, engin tök á því og sýndi þess vegna ekki námsárangur og lánasjóðurinn hefur lokað og sagt: Þú sýnir ekki þann námsárangur sem með þarf. Til viðbótar þessu fékk hún í síðustu viku kveðju frá félmrh. af því að hún býr í félagslegri íbúð þar sem vextirnir eru hækkaðir um 150%. Um áramótin tilkynnti hæstv. heilbrh. henni það eins og öðrum einstæðum mæðrum að á mánuði ætti að lækka meðlagið og mæðralaunin um 1.000 kr. Heldur hæstv. heilbrrh. að það sé nauðsynlegt að vekja frekar upp kostnaðarvitund hjá þessari ungu stúlku? Heldur hæstv. ráðherra að þessi unga stúlka skilji þær umbætur sem þessi ríkisstjórn þykist vera að berjast fyrir til almannaheilla? Því spyr ég: Hefur hæstv. ráðherra kjark, sem hann virðist

hafa nú um þessar mundir, til að viðurkenna að hér sé um ranglæti að ræða? Vill hann gera breytingar á?
    Þessi reglugerð á að vera til þess eins og allar fyrri að spara. Hún sparar ekki neitt vegna þess að fólk hefur ekki efni á að fara á stofur sérfræðinganna út í bæ og það fólk sem ekki getur greitt krefst þess að leggjast inn á skúkrahús þar sem aðgerðirnar kosta ekki neitt. Það eru hins vegar aukin útgjöld fyrir sjúkratryggingarnar í heild sinni. Enn eitt dæmið um að þær aðgerðir sem hæstv. ráðherra er að grípa til og eru staðfesting á að þær eru vanhugsaðar og þær eru illa undirbúnar. Hvernig sem menn velta þessu fyrir sér og hversu oft sem hæstv. fjmrh. kemur fram í fjölmiðlum og segir: Hér er ekki um skattahækkanir að ræða. Það er verið að leggja á þjónustugjöld, og það sama hefur hæstv. heilbrrh. einnig gert. Og þó svo að hæstv. heilbrrh. skilji ekki eða skynji muninn á því að það er mikill munur á því hvort menn þurfa að fá lækni heim til sín eða fá sjónvarpsviðgerðarmann. Það er mjög mikill munur á þessu vegna þess að það getur verið spurning um líf eða dauða hvort menn hafa efni á að kalla á lækni eða ekki. Hins vegar geta menn hæglega frestað viðgerðinni á sjónvarpinu þar til menn hafa peninga til að láta gera við. Beinar skattálögur á sjúklinga, öryrkja og ellilífeyrisþega eru frá því að þessi ríkisstjórn tók við upp á 2.200 millj. kr. og skiptast þannig og ég nota þá tölu Alþýðusambands Íslands, þá hærri sem ég minntist á hér áðan:
    Lyfjaskatturinn er 750 millj. kr., sérfræðikostnaðurinn hefur hækkað fyrir sjúklinga um 460 millj., inngangseyririnn á heilsugæslustöðina er 240 millj. kr., aukin þátttaka foreldra í tannlæknakostnaði er 510 millj. kr. og skerðingin sem hæstv. ráðherra beitti sér fyrir fyrir rúmu einu ári síðan á elli- og örorkulífeyri er 250 millj. kr. Samtals eru þetta 2.200 millj. kr.
    Nú þarf hæstv. heilbrrh., meðan hann hefur kjark, að viðurkenna að stefnan er röng. Hún er ósanngjörn, hún sparar ekkert heldur skattleggur hún þá í þessu þjóðfélagi sem síst skyldi. Viðurkenni hann þetta þá er bara spurningin: Er vilji til staðar til að breyta?