Kaup á björgunarþyrlu

117. fundur
Fimmtudaginn 25. febrúar 1993, kl. 14:39:28 (5448)

     Ingi Björn Albertsson :
    Hæstv. forseti. Ég vil leyfa mér að fara fram á það við virðulegan forseta að hún kalli á fundinn hæstv. forsrh., verkstjóra þessarar ríkisstjórnar. Ég tel alveg nauðsynlegt að hann verði viðstaddur umræðuna og upplýsi þingheim um hver stefna ríkisstjórnarinnar sé í þessu máli. Jafnframt ég tel einnig nauðsynlegt að hæstv. fjmrh. sé viðstaddur þar sem hér hefur komið fram hjá formanni allshn. að ríkisstjórnin hyggist nýta þá heimild sem er í 6. gr. fjárlaga en á móti hef ég heyrt af vörum hæstv. fjmrh. að hann hyggist ekki nýta þá heimild. Ég tel alveg nauðsynlegt að hæstv. fjmrh. verði kallaður til fundarins til að upplýsa hvort er rétt það sem hann hefur látið frá sér fara eða það sem hér var upplýst áðan eða það hvort hæstv. fjmrh. hefur skipt um skoðun. Þetta tel ég mjög mikilvægt upp á framhald þessarar umræðu að þessir tveir hæstv. ráðherrar séu viðstaddir og geri grein fyrir sínum sjónarmiðum, annars vegar fjmrh. og hins vegar hæstv. forsrh., verkstjóri þessarar ríkisstjórnar. ( Forseti: Vegna orða hv. 5. þm. Reykv. vill forseti geta þess að hæstv. fjmrh. fór utan í morgun þannig að ekki er hægt að fá hann hingað en það er verið að athuga hvort hæstv. forsrh. geti komið til fundarins. Ég vil því spyrja hv. þm. hvort hann gæti gert hlé á máli sínu meðan það er athugað og forseti gæti þá leyft næsta hv. ræðumanni að tala áður en ljóst verður hvort hæstv. forsrh. getur komið hingað.) Ég þakka, hæstv. forseti, ég mun þá þiggja það og gera hlé á máli mínu uns hæstv. forsrh. mætir til fundarins.