Kaup á björgunarþyrlu

117. fundur
Fimmtudaginn 25. febrúar 1993, kl. 16:22:19 (5479)

     Eyjólfur Konráð Jónsson (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Hv. þm. Ingi Björn Albertsson er nú búinn að svara því sem hv. þm. Árni Johnsen sagði hér áðan að nokkru, en mér ofbauð sú ræða, ég verð að segja það eins og það virkaði á mig að hún var varla þinghæf. En að vera að tala um Kanadekur, það séu einhverjar árásir --- við heyrðum önnur orð sterkari hér í gamla daga um hverjir væru með Kandekur og Kanadindlar og slíkt. Ég hef verið nefndur svona nöfnum og ekki tekið það neitt nærri mér og að það væru einhverjar aðdróttanir að Ameríkönunum fyrir það að hafa samvinnu við okkur sem þeir áttu að hafa haft um varnir landsins og þar á meðal auðvitað Landhelgisgæslu. Það er ekkert nýtt í því. Það hefur verið aðalliðurinn í þeirra starfrækslu og til þess að verja einhverjar vesældarnefndir sem hafa gefist upp í málinu þá þurfi að grípa til svona vandræðaskýringa, það finnst mér nú ekki við hæfi.
    Út af fyrir sig þarf ég ekkert að ræða frekar um þetta. En ég vil benda á í þessu þyrlumáli að menn hafa tekið þetta mjög alvarlega og notað sterk orð um að það er alveg frá 1987 reyndar en fyrst og fremst þáltill. frá 1991 sem hér er rætt um. Í þeirri þáltill. sem einróma var samþykkt á Alþingi Íslendinga, einróma samþykkt og þótti engum mikið, segir orðrétt, hæstv. forseti:
    ,,Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að sjá til þess að á árinu 1991 verði gerður samningur um kaup á fullkominni björgunarþyrlu fyrir Landhelgisgæsluna.``
    Orðalag þingsályktana er með nokkuð mismunandi móti. Hérna er það eins sterkt og það getur verið. Það er fyrirskipun um að gera þetta og það hefur allt verið svikið.