Kaup á björgunarþyrlu

117. fundur
Fimmtudaginn 25. febrúar 1993, kl. 17:02:24 (5490)

     Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Það er augljóst að hv. þm. hefur ekki nýjustu upplýsingar eins og þingmaðurinn talaði. En þannig er að nýjustu upplýsingar benda til þess að kostnaður sambærilegra þyrlna af báðum þessum tegundum sem helst hafa verið ræddar sé mjög svipaður og búnaðurinn svipaður, þannig er staðan. Ekki skal ég neitt um það segja af hverju hv. þm. dró inn í þetta mál umræður prófessors Sigurðar Líndal um forseta Íslands og það ákvæði sem stjórnarskráin geymir varðandi forseta Íslands og undirritun laga. Ég sá nú ekki hvað það átti við hér, það voru afskaplega athyglisverðar greinar vissulega. Kannski er þingmanninum það svo ofarlega í huga þar sem nú fyrir aðeins hálftíma síðan voru menn að ganga frá samkomulagi um hið Evrópska efnahagssvæði sem væntanlega þá hefur sinn gang nú allra næstu daga.