Seðlabanki Íslands

118. fundur
Föstudaginn 26. febrúar 1993, kl. 11:31:00 (5525)

     Ólafur Ragnar Grímsson (um þingsköp) :
    Virðulegi forseti. Ég er einn af þeim níu þingmönnum sem hef óskað eftir því að þeirri grein þingskapalaga, sem hv. þm. Halldór Ásgrímsson gerði grein fyrir, verði beitt í þessu máli. Til viðbótar við þau rök sem hv. þm. Halldór Ásgrímsson rakti hér þá vil ég færa fram tvenn til viðbótar.
    Í fyrsta lagi er alveg ljóst, bæði á greinargerð frv. og eins ýmsum tillögum um breytingar á lögunum, að þar er verið að taka mið af hugmyndum og veruleika sem að mörgu leyti á ekki við í dag. T.d. á sú lýsing á gjaldeyrismörkuðum og tengingu mynta Norðurlanda við gjaldmiðla aðildarríkja Evrópubandalagsins og meint gengisfesta á þeim gjaldeyrismörkuðum er eins og allur þingheimur veit með allt öðrum hætti nú en þegar greinargerð frv. var samin. Einnig er ljóst að hugmyndir manna um samspil peningastefnu, efnahagsstefnu stjórnvalda og seðlabanka, m.a. í Bandaríkjunum, eru nú með allt öðrum hætti heldur en á blómaskeiði frjálshyggjunnar sem með einum eða öðrum hætti hefur haft áhrif á hugmyndakerfi manna á síðustu árum. Það er auðvitað skynsamlegt að skoða þessa þætti vel annars staðar en hér í almennum umræðum áður en þær halda áfram.
    Hitt atriðið sem mér finnst renna stoðum undir það að þessari grein verði beitt er að nauðsynlegt er að það verði alveg skýrt hér í þinginu áður en umræðan heldur áfram, hvort hæstv. viðskrh. er að mæla hér fyrir frv. um aukið vald aðalbankastjóra Seðlabankans og ætli sér síðan sjálfur að setjast í þá stöðu skömmu eftir að þessi lög hafa tekið gildi. Það er satt að segja afar óvenjulegt að ráðherra mæli fyrir veigamiklum breytingum af því tagi sem hér hefur verið mælt fyrir og ætli sér síðan sjálfur að vera fyrstur manna til þess að beita því valdi sem lagt er til í frv.
    Nú hefur það verið rætt víða í þjóðfélaginu að hugmyndar séu um það að hæstv. viðskrh. verði síðar á þessu ári aðalbankastjóri Seðlabankans. Ég ætla ekki að knýja neitt á um svar við því nú, en ég tel að það sé alveg nauðsynlegt áður en þingið heldur áfram umfjöllun um málið að það liggi fyrir hvort sá ráðherra sem fer með þetta mál hér gagnvart þinginu er í reynd að biðja um aukið vald handa sjálfum sér síðar á þessu ári eða ekki. Ég mælist þess vegna til þess við hæstv. viðskrh. að meðan nefndin er að skoða málið, þá íhugi hann það að þegar 1. umr. heldur áfram, fyrst hann vék ekki að því í sinni framsöguræðu sem ég átti nú kannski von á vegna þess hve þetta hefur verið rætt mikið í þjóðfélaginu, að hann geri hann þinginu alveg skýra grein fyrir því hver ætlan hans er í þessum efnum, hvort hann hyggist áfram gegna störfum ráðherra eða sækjast eftir embætti seðlabankastjóra síðar á þessu ári. ( JGS: Ætli honum hafi ekki dottið í hug að gegna hvoru tveggju?)