Seðlabanki Íslands

118. fundur
Föstudaginn 26. febrúar 1993, kl. 11:43:52 (5530)

     Ólafur Ragnar Grímsson (um þingsköp) :
    Virðulegi forseti. Það er ánægjulegt að formaður þingflokks Sjálfstfl. hefur tekið vel í þá tillögu sem hér er flutt. Eins og þegar hefur komið fram, þá er margt sem hefur verið að breytast á síðustu missirum sem gerir það nauðsynlegt að skoða þetta mál í öðru ljósi en unnið var að því á sínum tíma. Ég ítreka það sem ég sagði áðan að í öflugasta forusturíki hagkerfis veraldarinnar, Bandaríkjunum, eru nú allt aðrar hugmyndir um samspil stjórnvalda og efnahagsstarfsemimótunar og um hlutverk peningastefnu og annarra þátta í efnahagmsálum en voru í 12 árin þar á undan. Það þarf ekki að lesa lengi, t.d. í greinargerð þessa frv., til þess að sjá áhrifin af hinum gömlu hugmyndum frá ráðatíma hinnar hörðu frjálshyggju í ýmsu í þessu frv.
    Hv. þm. Geir Haarde sagði að ég hefði verið með aðdróttanir í garð hæstv. viðskrh. vegna þess að ég spurði að því hvort það væri rétt að hann hygðist taka við stöðu seðlabankastjóra. Það er nú sérkennilegt að kalla það aðdróttun að maður ætli að gegna einhverri valdamestu og mikilvægustu stöðu í þessu þjóðfélagi. En það stendur í þessu frv. hvað eftir annað að markmið þess sé að búa til sjálfstæðan og faglega sterkan seðlabanka sem starfi án tengsla við ríkisstjórnina að öðru leyti. Þetta frv. felur í sér þær meginbreytingar að menn vilji sjálfstæðan og faglegan seðlabanka. Það er þess vegna ósköp eðlilegt að við sem erum fylgjandi þeirri stefnu viljum fá að vita hvort það eigi kannski að framkvæma þessi lög með því að sá harðpólitíski ráðherra sem frv. ber fram eigi að verða hinn fyrsti, sjálfstæði og faglegi seðlabankastjóri eða ekki og hvort hann ætli þá að fara að starfa án tengsla við þá ríkisstjórn sem hann er búinn að sitja í og vera einn áhrifamesti maðurinn í og hefur varið hér á Alþingi á undanförnum árum. Þetta snertir auðvitað sjálft grundvallarinntak þessa frv., hvernig núv. ríkisstjórn hyggst framkvæma það.
    Það hefur komið hér fram að fulltrúi Alþb. hefur lagt til í nefndinni þá grundvallarbreytingu á núverandi skipan að í stað þess að vera með hið gamla, pólitíska lénskerfi í stjórn Seðlabankans komi einn faglegur og sjálfstæður seðlabankastjóri sem stýri þessari stofnun. Það er tillaga sem við munum flytja hér á þinginu, hæstv. viðskrh., og snertir auðvitað grundvallaratriðið varðandi skipan peningamála á Íslandi. Ég tel að það muni greiða mjög fyrir þessu máli hér í þinginu hvort við fáum að vita það með alveg óyggjandi hætti, hvort ríkisstjórnin hyggst vinna að málinu á þeim grundvelli sem talað er um í frv. að menn ætli sér að styrkja faglegt sjálfstæði Seðlabankas eða hvort Seðlabankinn ætlar sér áfram að vera pólitískt útibú með því að einn af ráðherrum ríkisstjórnarinnar setjist í æðsta valdasæti bankans á miðju þessu ári.