Frágangur fjárlaga 1993

120. fundur
Fimmtudaginn 04. mars 1993, kl. 10:44:12 (5574)

     Ólafur Ragnar Grímsson :
    Virðulegi forseti. Á undanförnum missirum hafa staðið nokkrar deilur um hvernig ætti að færa ýmsar tölur í ríkisreikningi og ríkisbókhaldi. Þær deilur hafa einkum verið milli Ríkisendurskoðunar annars vegar og fjmrn. hins vegar. Ég hef bæði sem fjmrh. og einnig eftir að ég tók sæti í stjórnarandstöðu yfirleitt stutt faglegar röksemdir fjmrn. í þeim deilum. Ég verð hins vegar að segja eins og er að í þessu máli finnst mér fjmrn. vera komið í slíka stöðu að ég botna bókstaflega ekkert í því hvernig ráðuneytinu dettur í hug að halda fram þeim sjónarmiðum sem hæstv. fjmrh. var að gera grein fyrir hér áðan. Auðvitað er alveg fáránlegt að færa ekki tekjuskatt sem innheimtur er samkvæmt sérstökum tekjuskattslögum, sem er tekjustofn ríkisins, sem tekjur og halda því fram hér að það sé bara vegna þess að það hafi verið ákveðið í lögum að þetta gildi í eitt ár. Það er auðvitað gersamlega út í hött. Fjöldinn allur af lögum hefur ákvæði um að það sé bara til eins árs í senn. Ég nefni skattinn á skrifstofu- og verslunarhúsnæði sem var yfirleitt lagður á bara til eins árs í senn en var endurtekinn ár eftir ár eftir ár. Ég hef því miður ekki nægilega langan tíma til þess að greina frá afstöðu mini í þessu máli. Ég tel að hún veiki mjög málstað fjmrn. almennt í þeim deilum sem hér hafa verið um færslur í ríkisbókhaldi og það hlýtur að vera einhver önnur skýring á þessu máli en hér hefur komið fram og líklegast er eina skýringin sú að hæstv. fjmrh. hefur ekki viljað fá þennan tekjuskatt inn á sig vegna þess að hann mundi þá sýna það að í fjármálaráðherratíð sinni hefur tekjuskattur einstaklinga og skattbyrði einstaklinga hjá ríkinu vaxið svo stórkostlega að það er auðvitað í hrópandi mótsögn við stefnu Sjálfstfl.