Frágangur fjárlaga 1993

120. fundur
Fimmtudaginn 04. mars 1993, kl. 10:59:52 (5582)

     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) :
    Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að mótmæla orðum hv. síðasta ræðumanns um að um blekkingar sé að ræða því að það hefur komið mjög glögglega fram að fyrir þessu er gerð grein í fjárlögum og fylgiritum með fjárlögum. Þetta hefur alltaf legið á lausu og ég held að það hafi ekki farið fram hjá nokkrum manni hvernig tilfærsla hefur átt sér stað í íslenska skattkerfinu að undanförnu þannig að ég vísa því algerlega á bug að hér sé verið að reyna að blekkja eins og hv. þm. gaf í skyn.
    Ég vek athygli á því líka að þetta var rætt í fjárln. og það er meiri hluti fjárln. sem flytur brtt. sem

þetta byggist á. Mér er að vísu kunnugt um það að 18. des. var hv. þm. Guðrún Helgadóttir ekki á viðkomandi fundi þannig að kannski hafa umræðurnar farið fram hjá henni sem urðu þá um nákvæmlega þetta mál.
    Varðandi önnur atriði sem hafa komið fram langar mig að gera hér örstutta grein fyrir þeim. Í fyrsta lagi er hér ekki um að ræða fyrir fram ákveðna upphæð sem rennur til sveitarfélganna. Hún byggist á álagningu aðstöðugjaldsins og ég held að það séu kannski ein bestu rökin sem hafa komið fram hér í umræðunni, einmitt þau sem nokkrir hv. þm. hafa bent á, að hér er um bráðabirgðaatriði að ræða. Lögin um aðstöðugjald eru í gildi, en sveitarfélögunum er ætlaður hluti af tekjuskattstekjunum til sín með sama hætti og um útsvarsgreiðslur væri að ræða úr staðgreiðslunni. Þetta er auðvitað það sem mest styður þá niðurstöðu sem hér hefur verið talað um.
    Í öðru lagi er hér nokkur misskilningur á ferðinni varðandi skólagjöldin því að skólagjöldin eru tekjur gjaldamegin og sýna fram á kannski hið gagnstæða við það sem ég held að hv. þm. hafi ætlað að sýna fram á. ( GHelg: Ég benti á misræmi.) Það er misræmi í uppsetningu fjárlaga miðað við það sem víða gerist annars staðar og það er gamalt mál. Þessir fjármunir ganga aldrei inn í ríkissjóð og þess vegna er ólíku saman að jafna og þegar við tölum um skatt á skrifstofu- og verslunarhúsnæði því að þeir peningar ganga inn í ríkissjóð til almennrar ráðstöfunar þar, en þessir fjármunir gera það aldrei.
    Virðulegi forseti. Ég veit að ég hef ekki mikinn tíma og hann er reyndar liðinn, en ég vænti þess að þessi umræða hafi skýrt málið. Ég vil að endingu taka það fram að það var ekkert verið að blekkja. Það hafa rök verið færð fyrir þessu. Ég skal viðurkenna það fúslega að það eru rök fyrir því einnig að færa málið öðruvísi eins og sumir hv. þm. hafa bent á, en vonandi verða þær umræður sem fara fram í ríkisreikninganefnd til þess að í lok þessa árs verði hægt að færa fjárlögin upp og þau framsett með öðrum hætti heldur en hingað til. Um slíkt held ég að við verðum að ræða síðar.