Sveitarstjórnarlög

121. fundur
Fimmtudaginn 04. mars 1993, kl. 11:43:27 (5591)

     Páll Pétursson :
    Frú forseti. Ég vil lýsa stuðningi við þetta litla frv. Það er auðvitað fásinna að hjáseta eða ógilt atkvæði teljist stuðningur við mál og þarf svo sem ekki að hafa mörg orð þar um. Ég tel líka að það sé orðið tímabært að stinga við fótum vegna þess æðibunugangs sem uppi hefur verið varðandi sameiningu sveitarfélaga. Sameining sveitarfélaga á auðvitað rétt á sér og er í mörgum tilfellum öllum til hagsbóta en það þarf ekki að vera að hún sé lausnarorð í öllum tilfellum. Ég tel að grundvallaratriði þess að sameining sveitarfélaga eigi rétt á sér sé að meiri hluti kjósenda í hverju sveitarfélagi fyrir sig sé samþykkur sameiningunni. Það dugir ekki einfaldur meiri hluti á svæðinu og hvað þá einfaldur meiri hluti sem fenginn er með þeim hætti sem núgildandi lög kveða á um. Ég tel sem sagt að ef meiri hluti íbúa í sveitarfélögum, hverju fyrir sig, vill sameiningu þá sé það gott og blessað en alveg forkastanlegt að ætla að lögþvinga fram sameiningu sveitarfélaga. Þetta vildi ég að kæmi fram sem mín afstaða hér og nú. Sem betur fer virðist mér nú að æ fleiri átti sig á því að lögþvinguð sameining er ekki af hinu góða. Ég held að það sé fullkomin ástæða fyrir menn þar sem sameining er á döfinni að gera sér grein fyrir því hvað vinnst við sameininguna, hvað sparast við sameininguna, hvaða aukna þjónustu menn geta fengið með hagfelldari hætti í sameiningu o.s.frv. Það er náttúrlega mjög mismunandi eftir landsvæðum hvernig háttar til um hentugleika á sameiningu. Jafnframt ber að taka tillit til atvinnuhátta. Atvinnuhættir í sveitum og þéttbýli eru mismunandi og þar af leiðir að það er eðlilegt að viðfangsefni hvers sveitarfélags marki nokkuð starf sveitarfélaganna. Þéttbýlisbúarnir þurfa ekki að hugsa um fjallskil eða önnur sameiginleg mál þeirra sem í sveitunum búa. Þetta er meginatriði. Ég bið menn að líta ekki fram hjá því. Æ fleiri forráðamenn sveitarfélaga hafa áttað sig á þessu og það tel ég að sé af hinu góða.
    Ég tel að núgildandi lög heimili sveitarfélögum og gefi þeim möguleika til samvinnu sín í milli, mjög víðtækrar samvinnu, og það sé sjálfsagt að ýta undir það fremur en bregða fyrir þá samvinnu fæti. En ég er sem sagt algerlega andvígur því að ætla að fara að lögþvinga sameiningu sveitarfélaga.