Sveitarstjórnarlög

121. fundur
Fimmtudaginn 04. mars 1993, kl. 14:02:58 (5618)

     Flm. (Kristinn H. Gunnarsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það er einmitt hið gagnstæða sem ég stend fyrir í þessu máli og það er að að málum verði þannig staðið og að þeim unnið að réttur hinna fámennari verði tryggður þannig að hinir fjölmennu gleypi ekki hina fámennu, að stóri fiskurinn éti ekki litla fiskinn. En þannig hefur málið verið sett fram og mælt fyrir því að hið fjölmenna, stóra sveitarfélag á að hafa öll forræði málsins í hendi sér og hinir fámennu, sveitarfélög sem á að leggja undir hið fjölmenna, hafi engin tök á því að ráða framvindu mála. Það er nákvæmlega það sem ég hef verið að gagnrýna hvað mest og benda hvað harðast á að ef menn ætla að ganga þessa braut, þá verður það að vera þannig að réttur allra íbúanna sé virtur, líka þeirra sem nú búa í fámennum sveitarfélögum. Það er nákvæmlega þetta sem er kjarninn í málinu og þetta kalla ég jafnaðarmennsku. Hitt kalla ég ekki jafnaðarmennsku heldur ójafnaðarmenn. Til forna voru þeir kallaðir ójafnaðarmenn sem kúguðu aðra undir sig. Við megum ekki vinna að þessum málum þannig að hinir fámennu séu réttlausir í framhaldi málsins ef sameining á sér stað. Við verðum að tryggja stöðu allra íbúanna.