Framkvæmdaáætlun til að ná fram jafnrétti kynjanna

121. fundur
Fimmtudaginn 04. mars 1993, kl. 14:13:34 (5625)

     Félagsmálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) :
    Virðulegi forseti. Ný lög um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla tóku gildi í mars 1991. Í 17. gr. laganna er kveðið á um að félmrh. beri að leggja fyrir Alþingi till. til þál. um áætlun í jafnréttismálum til fjögurra ára í senn að fengnum tillögum einstakra ráðuneyta og Jafnréttisráðs. Með þessu ákvæði í lögum hafa jafnréttismálin fengið mun meira vægi innan stjórnkerfisins. Í eldri lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla var einnig kveðið á um skyldu ráðherra til að kynna fyrir Alþingi framkvæmdaáætlun í jafnréttismálum. Var það gert í annað sinn vorið 1991. Framkvæmdaáætlunin sem hér er lögð fram er endurskoðuð áætlun ríkisstjórnarinnar sem lögð var fyrir Alþingi í febrúar árið 1991 að fenginni umsögn og breytingartillögu Jafnréttisráðs, einstakra ráðuneyta og Hagstofunnar.
    Í fyrstu framkvæmdaáætlun ríkisstjórnarinnar frá árinu 1986 voru m.a. sett fram markmið á sviði menntamála. Lögð var áhersla á jafnréttisfræðslu í skólum og hefur ýmislegt áunnist á því sviði. Árið 1987 skipaði þáv. menntmrh. starfshóp sem fjallaði um jafna stöðu kynja í skólum. Starfshópurinn skilaði skýrslu í maí 1990 og eru helstu tillögur hans m.a. að starfsfólk allra skólastiga eigi kost á fræðslu um jafnrétti og stöðu kynja í skólum, að viðfangsefni í öllum skólum höfði jafnt til og taki mið af reynslu beggja kynja, að starfsmannastefna í skólum verði mörkuð með hliðsjón af því að störf innan þeirra séu ekki kynbundin og að náms- og kennslugögn séu samin og endurskoðuð með jafnréttissjónarmið að leiðarljósi.
    Í þeirri áætlun sem nú er lögð fram er lögð áhersla á að konur gegni trúnaðarstöðum og ábyrgðarstöðum til jafns við karla en konur eru enn í miklum minni hluta þeirra sem gegna trúnaðar- og ábyrgðarstöðum hjá ríki og sveitarfélögum. Í framkvæmdaáætlun frá 1986 var lögð áhersla á að ríki og sveitarfélög ynnu markvisst að því að tala kynja í stjórnum, nefndum og ráðum á vegum þessara aðila yrði sem jöfnust. Einnig var lagt til að konur sem starfa hjá hinu opinbera fái aukin tækifæri til að gegna ábyrgðarstöðum.
    Í lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla er ákvæði um að leitast skuli við að hafa sem jafnasta tölu kynja í stjórnum, nefndum og ráðum á vegum ríkis, sveitarfélaga og félagasamtaka þar sem því verður við komið. Í gildandi lögum er fastara að orði kveðið. Lagaákvæði frá 1985 hefur skilað nokkrum árangri á allra síðustu árum en fram kemur í úttekt Jafnréttisráðs á hlutverki kvenna og karla í stjórnum, nefndum og ráðum á vegum ríkisins að hlutur kvenna var um 11% á árinu 1985 og 1987 en í apríl 1990 var hlutur kvenna orðinn um 16,6%. Þetta hlutfall er þó mun lægra en í flestum hinna Norðurlandanna. T.d. er hlutur kvenna í opinberum stjórnum, nefndum og ráðum í Noregi orðinn 36%.
    Rétt er að vekja einnig athygli á jafnréttisáætlun ráðuneyta og ríkisstofnana. Að frumkvæði Jafnréttisráðs og félmrn. samþykkti ríkisstjórnin vorið 1988 tillögu þess efnis að ráðuneyti og ríkisstofnanir með fleiri en 20 manns settu jafnréttisáætlanir til fjögurra ára í senn fyrir tímabilið janúar 1989 til desember 1992. Í áfangaskýrslu Jafnréttisráðs um jafnréttisáætlanir sem birt var í september 1991 kemur m.a. fram að 42 ríkisstofnanir urðu við tilmælum ríkisstjórnarinnar og gerðu jafnréttisáætlanir. Segja má að flestir forráðamenn hafi tekið jákvætt undir tilmælin en þeir töldu hins vegar að ytri ástæður sem þeir réðu ekki við, svo sem hefðbundið menntunar- og starfsval kvenna og karla, launakjör í almennum skrifstofustörfum og hefðbundin verkskipti kvenna og karla varðandi umönnun barna og ábyrgð á heimilisrekstri hafi hindrað að raunverulegt jafnrétti milli kynjanna væri orðið að veruleika. Líklegt er þó að starfsmannastefna innan þessara stofnana hafi haft töluverð áhrif en ekki eingöngu óviðráðanlegar ytri aðstæður. Jafnframt kemur fram í áfangaskýrslunni að þau ráðuneyti, sem settu sér það markmið að auka hlut kvenna í nefndum og ráðum og tilgreindu leiðir til að ná því markmiði, náðu árangri umfram önnur ráðuneyti. Mikilvægt er að jafnréttisáætlanir séu unnar markvisst og að þær séu teknar alvarlega af hlutaðeigandi aðilum.
    Nokkur félagsleg réttindi hafa áunnist á undanförnum árum sem skipta konur miklu. Fæðingarorlof hefur lengst. Þá hefur verið um það samið í kjarasamningum að eftir tveggja ára starf hjá sama vinnuveitanda teljist fjarvistir vegna fæðingarorlofs til starfstíma við mat á ýmsum réttindum. Flestallir launþegar eiga nú einhvern rétt til fjarveru frá vinnu vegna veikinda barna. Hins vegar er ekki tekið tillit til barnafjölda eða hjúskaparstöðu þegar rétturinn er metinn. Þessi atriði bæta vissulega stöðu kvenna á vinnumarkaði.
    Samkvæmt lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla frá 1991 er hér með lögð fram þáltill. um framkvæmdaáætlun ríkisstjórnarinnar til fjögurra ára um aðgerðir til að ná fram jafnrétti kynjanna. Eins og áður var sagt lagði ég fram skýrslu um sama efni vorið 1992. Þessi framkvæmdaáætlun er að miklu leyti byggð á þeirri skýrslu en jafnframt er í henni nýr kafli um starfsmannamál ríkisins ásamt niðurstöðum úr launakönnun hjá opinberum starfsmönnum og kostnaðarmat frá fjárlagaskrifstofu fjmrn. Endurskoðun á gildandi framkvæmdaáætlun fór þannig fram að í nóvember 1991 var öllum ráðuneytum, Hagstofunni og Jafnréttisráði sent bréf þar sem þeim var gefinn kostur á að gera á henni breytingar og/eða bæta við nýjum atriðum er þau töldu þörf á. Jafnframt var fjmrn. beðið um að meta sérstaklega kaflann um starfsmannamál ríkisins. Þá er einnig óskað eftir kostnaðarmati frá fjmrn. og fylgir það með þessari þáltill.
    Nokkur ráðuneytanna gerðu engar athugasemdir við gildandi framkvæmdaáætlun. Önnur gerðu minni háttar athugasemdir og enn önnur lögðu til alveg nýja kafla. Farið var eftir tillögum ráðuneytanna í öllum helstu atriðum. Óskað var eftir umsögnum um þáltill. frá 11 aðilum, þeim samtökum sem láta sig jafnréttismál varða, nokkrum stéttarfélögum og Vinnuveitendasambandi Íslands. Þá er einnig verið að óska eftir upplýsingum frá einstökum ráðuneytum varðandi þann kostnað sem tillagan mun hafa í för með sér. Samráð var haft við Jafnréttisráð þegar ákvörðun um endurskoðun um framkvæmdaáætlun var tekin. Jafnframt tók framkvæmdastjóri ráðsins þátt í endurskoðun áætlunarinnar og undirbúningi þáltill. Jafnréttisráð lagði til að saminn yrði sérstakur kafli um starfsmannamál og var hann unnin samkvæmt tillögum ráðsins. Framkvæmdaáætlunin, sem hér er lögð fram, er því endurskoðuð áætlun ríkisstjórnarinnar frá því í febrúar 1991

að fengnum tillögum einstakra ráðuneyta, Hagstofunnar og Jafnréttisráðs.
    Framkvæmdaáætlunin byggir á því sjónarmiði sem fram kemur í lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla að stjórnvöldum ber skylda til að vinna að bættri stöðu kvenna í samfélaginu. Í lögunum er jafnframt tekið fram að markvisst skuli unnið að því að jafna stöðu kvenna á vinnumarkaði og veitt er heimild til sérstakra tímabundinna aðgerða til að ná því markmiði. Með lagasetningunni var stjórnvöldum gert að sýna fordæmi og eiga frumkvæði að aðgerðum á þessu sviði. Í framkvæmdaáætluninni er lögð áhersla á skyldu ráðherra og ráðuneyta til að vinna að því að jafna stöðu kvenna og karla hvert á sínu sérsviði. Með þessu er ekki verið að draga úr mikilvægi þess að unnið sé að bættri stöðu á hinum almenna vinnumarkaði. Í áætluninni er einnig lögð áhersla á að verkefni ráðuneytanna tengist hinum almenna vinnumarkaði. Stjórnvöld geta og eiga á grundvelli frumkvæðisskyldu sinnar að vinna að bættri stöðu kvenna alls staðar í samfélaginu.
    Meginmarkmið þessarar þáltill. er að bæta stöðu kvenna innan ráðuneytanna og undirstofnana þeirra, jafnframt því að hafa áhrif á stöðu kvenna almennt á vinnumarkaði. Áhersla er lögð á eftirfarandi þætti: Starfsmannamál ríkisins, aðgerðir til að jafna stöðu kynjanna á öllum skólastigum, launamál kvenna, sérstakar aðgerðir til að bæta stöðu kvenna í dreifbýli og ýmis félagsleg réttindi.
    Ég vek athygli á nokkrum atriðum í þáltill. Kaflanum um starfsmannamál ríkisins er ætlað að gera ramma að starfsreglum sem hvert ráðuneyti og ríkisstofnun mundi útfæra nánar og hafa að leiðarljósi við gerð sérstakra jafnréttisáætlana til fjögurra ára í senn. Þessi rammi yrði þannig framhald að gildandi jafnréttisáætlunum sem ég hef þegar greint frá en þær falla úr gildi á þessu ári. Ég vil vekja athygli á því að öll ákvæði í kaflanum um starfsmannamálin byggja á lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla frá 1991. Í ákvæðum um auglýsingar á lausum stöðum er lagt til að stofnanir láti koma fram hvatningu í auglýsingu þess efnis að konur jafnt sem karlar sæki um þær. Þetta ákvæði byggir á 5. gr. jafnréttislaga en þar er kveðið á um að atvinnurekendur skuli vinna markvisst að því að jafna stöðu kynjanna á vinnumarkaði. Í 7. gr. sömu laga er kveðið á um að ef tilgangur auglýsenda sé að stuðla að jafnri kynjaskiptingu megi hann óska eftir öðru hvoru kyninu til starfa. Þessi ákvæði geta haft veruleg áhrif í þá veru að jafna hlut kynjanna á vinnumarkaði.
    Í starfsmannakaflanum er einnig ákvæði um hlut kvenna í nefndum, stjórnum og ráðum og er kveðið á um að ríkisstjórnin setji sér það markmið að hlutur kvenna í nefndum á vegum ríkisins nái 30% í lok gildistíma framkvæmdaáætlunarinnar. Til að ná því markmiði er sérstakra aðgerða þörf og mikilvægt að 12. gr. jafnréttislaganna sé framfylgt og ávallt sé óskað eftir tilnefningu bæði karls og konu þegar skipa á í opinberar nefndir. Hlutur kvenna í opinberum nefndum er nú 17%, en í nefndum á vegum stærstu sveitarfélaganna er hlutfall kvenna orðið um og yfir 30%.
    Ég tel að jafnrétti í raun náist ekki án þátttöku kvenna í almennri stefnumótun í samfélaginu og því mikilvægt að sjónarmið þeirra njóti sín í opinberum nefndum, stjórnum og ráðum. Af öðrum ákvæðum í starfsmannakafla vil ég vekja athygli á kerfisbundnu starfsmati sem fram fari í því skyni að framfylgja 4. gr. jafnréttislaganna en hún kveður á um að konum og körlum skuli greidd jöfn laun fyrir jafnverðmæt störf. Norræna jafnlaunaverkefnið er nú á þriðja ári og mér er kunnugt um að Jafnréttisráð hefur lagt mikla áherslu á kynningu og fræðslu á því að nota starfsmat sem eina leið í jafnlaunabaráttunni. Í kaflanum um félmrn. er m.a. ákvæði um heildarstefnumótun í fjölskyldumálum en landsnefnd hefur starfað til þess að undirbúa aðgerðir á ári fjölskyldunnar 1994, sem Sameinuðu þjóðirnar standa að, og mun hún m.a. leggja fram tillögu þar að lútandi. Landsnefndir huga sérstaklega að stuðningsaðgerðum varðandi uppeldi og umönnun barna og annarra fjölskyldumeðlima sem á þurfa að halda.
    Í þessu samhengi vil ég einnig vekja athygli á ákvæði framkvæmdaáætlunar þess efnis að gerð verði úttekt á stöðu karla í breyttu samfélagi en mikilvægt er að feður eigi kost á að takast á við uppeldi barna sinna og heimilishald og er það ein af forsendum þess að jafnrétti kynjanna verði að veruleika. Skýrsla frá þeirri nefnd, sem hefur verið að skoða þetta mál og tillögur, er væntanleg innan skamms. Í kaflanum um félmrn. er lagt til að löggjöf um starfsmenntun í atvinnulífinu verði nýtt sérstaklega til að bæta stöðu kvenna á vinnumarkaðinum og stuðla að auknu atvinnuröryggi þeirra. Á undanförnum árum hefur félmrn. stuðst við starfsmenntunarnámskeið fyrir ófaglærðar konur, t.d. sem annast ræstingar og standa að matvælaframleiðslu.
    Af öðrum ákvæðum sem snúa að félmrn. vil ég vekja athygli á vinnuvernd. Í þáltill. er kveðið á um að gerð verði úttekt á nokkrum hefðbundnum kvennastörfum, svo sem umönnunar- og þjónustustörfum, með það að markmiði að draga fram tengsl milli atvinnu annars vegar og streitu, álags og slitsjúkdóma hins vegar. Sérstakur gaumur verði gefinn að einhæfum störfum. Niðurstöður úttektarinnar yrðu síðan notaðar til að leggja grunn að bættu vinnuumhverfi.
    Í þáltill. er áhersla lögð á gagnasöfnun um jafnréttismál. Fjmrn., Hagstofan og Þjóðhagsstofnun skulu hvert með sínum hætti halda yfirlit yfir og gefa út upplýsingar um starfskjör, launamun og ýmsar aðrar upplýsingar um stöðu kvenna og karla. M.a. er kveðið á um að Hagstofan gefi reglubundið út litla handbók sem hafi að geyma upplýsingar um stöðu kvenna og karla hér á landi en Hagstofan tekur þátt í norrænu verkefni um útgáfu slíkra upplýsinga.
    Varðandi einstök önnur ráðuneyti vil ég vekja athygli á kaflanum um dómsmrn. en þar er m.a. kveðið á um tillögu nefndar sem fékk það hlutverk að kanna rannsóknir og meðferð nauðgunarmála og sem

komu til framkvæmda á gildistíma áætlunarinnar. Í þessu felast m.a. breytingar á XXII. kafla almennra hegningarlaga en kaflinn fjallar um kynferðisafbrot. Þar er m.a. lagt til að kynferðisafbrot verði ókynbundin, að ákvæði laganna verði samrýmd ríkjandi viðhorfum nú á dögum og refsivernd verði almennt aukin. Þar er einnig lagt til að haldin verði námskeið fyrir lögreglumenn og starfslið í heilbrigðisþjónustu.
    Í kaflanum um menntmrn. er kveðið á um að ráðuneytið vinni samkvæmt tillögum nefndar um eflingu jafnréttis kynjanna á öllum skólastigum. Hér er um afar viðamikla áætlun að ræða og hef ég þegar greint frá nokkrum atriðum sem eiga að koma til framkvæmda á gildistímanum en nefnd á vegum menntmrn. hefur það verkefni að hrinda í framkvæmd þeirri stefnu sem mörkuð er í skýrslu nefndarinnar.
    Í kaflanum um verkefni fjmrn. er ákvæði um að við setningu laga um lífeyrissjóði verði tillit tekið til jafnréttis kvenna og karla og jafnframt verði réttindi heimavinnandi fólks athuguð sérstaklega.
    Í kaflanum um verkefni Hagstofunnar er að finna ákvæði varðandi eignarrétt á fasteignum. Er lagt til að Hagstofunni og Fasteignamati ríkisis verði falið að vinna að úttekt á því hverjir eiga fasteignir hér á landi. Tilgangur slíkrar úttektar er að vekja athygli kvenna á eignarstöðu sinni.
    Í kaflanum um iðnrn. er ákvæði um námskeið fyrir konur um frumkvæði í atvinnulífinu þar sem fjallað yrði fyrst og fremst um stefnumótun. Þar er einnig að finna ákvæði um að lögð verði áhersla á endurmenntun og starfsmenntun fyrir konur sem vilja fara á ný út á vinnumarkaðinn og takast á hendur ný störf í iðnaði.
    Að lokum nefni ég hér atriði sem snýr að heilbr.- og trmrn. Þar er ákvæði þess efnis að lögfesta verði reglur sem tryggja jafnan rétt foreldra til töku fæðingarorlofs og til greiðslna í fæðingarorlofi óháð því hvort um er að ræða opinbera starfsmenn eða starfsmenn á almennum vinnumarkaði. Jafnframt verði gildandi lög um fæðingarorlof endurskoðuð að því er varðar sjálfstæðan rétt feðra til töku fæðingarorlofs.
    Ég hef aðeins nefnt nokkur ákvæðanna sem eru í þáltill. en í henni eru ýmis önnur atriði sem munu stuðla að auknu jafnrétti kynjanna í opinberum störfum og á almennum vinnumarkaði. Ég vona að þessi till. til þál. um framkvæmdaáætlun ríkisstjórnarinnar um aðgerðir til að ná fram jafnrétti kynjanna fái hraða afgreiðslu og verði til þess að við náum meiri árangri í að jafna stöðu karla og kvenna hér á landi.
    Ég vil að lokinni umræðunni leggja til að till. verði vísað til hv. félmn.