Framkvæmdaáætlun til að ná fram jafnrétti kynjanna

121. fundur
Fimmtudaginn 04. mars 1993, kl. 15:19:11 (5637)

     Jón Kristjánsson :
    Herra forseti. Þessi þáltill. um framkvæmdaáætlun um aðgerðir til að ná fram jafnrétti kynjanna virkar þversagnarkennd á þingmenn. Ég þarf í rauninni ekki miklu við það að bæta sem komið hefur fram í þessari umræðu. Það ástand sem er í þjóðfélaginu gerir það að verkum að tillögugreinar eins og birtast í þessu þingskjali virka hálfhjákátlega á menn. Þær virka hjákátlega á menn t.d. í þjóðfélagi þar sem ástandið er þannig í skólamálum að konur hringja í háskólann og falla frá að greiða sín skólagjöld til að mennirnir þeirra geti haldið áfram námi. Svona þingskjal virkar hjákátlega þegar ástandið er svona. Og svona þingskjal um sveigjanlegan vinnutíma virkar hjákátlega þegar ástandið er þannig í þjóðfélaginu að það er verið að moka fólki út af vinnustöðum í hagræðingarskyni í stórum stíl, með réttu eða röngu. En tilgangurinn er sá að hagræða sem er mikið tískuorð. Undir þeim formerkjum er fólki mokað út af fjölmörgum vinnustöðum, körlum og konum. Svo kemur hér einhver tillgr. um sveigjanlegan vinnutíma. Hver trúir því að þessi ríkisstjórn muni halda svoleiðis á málum að þessi sveigjanlegi vinnutími verði að veruleika?
    Það mætti tína lengi til upp úr þessari skýrslu. Hér er sjálfsagt ýmislegt sem væri til bóta ef það yrði framkvæmt. Hins vegar er mergur málsins sá að ástandið er þannig að svona tillögugerð, svona þingskjal, virkar á menn eins og grín. Það er slæmt að hér skuli aðeins hæstv. félmrh. vera viðstaddur því það væri svo sannarlega ástæða til að ræða þessi áform við aðra ráðherra ríkisstjórnarinnar og hvort þeir hafi virkilega trú á að nokkur af þessum áformun verði framkvæmd í einhverri alvöru.
    Ég ætla ekki að eyða miklum tíma til viðbótar í þetta mál. Það er brýnasta málið eins og nú standa sakir að taka á í atvinnulífi þjóðfélagsins, reyna að bæta kjörin og hverfa frá því að leggja gjöld á fólk án tillits til efna eða ástæðna. Það er ekki í anda jafnréttis. Og svona plögg breyta því miður engu um ástandið. Það er stjórnarstefnan hverju sinni sem sker úr um árangurinn.