Greiðslur úr ríkissjóði o.fl.

121. fundur
Fimmtudaginn 04. mars 1993, kl. 17:19:56 (5652)

     Flm. (Karl Steinar Guðnason) :
    Virðulegi forseti. Ég vil aðeins segja nokkur orð um starfshætti nefnda. Hv. 9. þm. Reykv. ræddi um að ástæða væri til að breyta vinnubrögðum, t.d. fjárln. Ég tek undir það. Þingsköpum var breytt fyrir nokkru og viðamiklar breytingar gerðar. Við sem sitjum í fjárln. ákváðum að skoða málin vel. Það tekur tíma að aðlaga sig nýjum þingsköpum og við höfum kynnt okkur hvernig þessum málum er háttað í öðrum þjóðþingum, t.d. í Noregi. Mér sýnist ástæða til að gera ýmsar breytingar.
    Ég tel að það hafi náðst allmikill árangur í skipulagningu starfs fjárln. en það hefur verið svo að þrátt fyrir ný þingsköp þá hefur nefndin ekki komist yfir t.d. að taka lánsfjárlög. Ég tel ástæðu til að breyta því. Svo verð ég að játa það að sá háttur sem hafður er á í Noregi að fjárln. sjái bæði um tekju- og gjaldahlið sýnist mér til fyrirmyndar. Í raun starfar þar engin efh.- og viðskn. Það er undir fjárln. að sjá um tekjuhliðina einnig og mér finnst ástæða til að ræða hvort ekki sé ástæða til að breyta þessu á þann veg.
    Þessar umræður fara nú fram í fjárln. og ég vænti þess að þegar þeim lýkur gerum við breytingar, bæði í tillöguformi og vinnubrögðum, eftir því sem okkur þykir skynsamlegast.