Atvinnumál farmanna

122. fundur
Föstudaginn 05. mars 1993, kl. 13:43:59 (5702)

     Jóhann Ársælsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Ég ætla að byrja á því að taka undir með flm. frv. og segja að ég tel að þarna sé hreyft þörfu máli. En það sem fékk mig til andsvara við hv. síðasta ræðumann var það að hann sagði eitthvað á þá leið að hann vildi ekki að menn gerðu lítið úr þeirri atvinnustarfsemi sem fyrir væri í landinu og taldi að það ætti að styðja við hana. Nú er það svo að menn eru í raun og veru að setja flestalla atvinnustarfsemi sem fyrir er í landinu í beina samkeppni án þess að ríkið taki á nokkurn hátt afstöðu með innlendri atvinnustarfsemi með þeim samningum um EES sem liggja hérna fyrir. Er það tilfellið að hv. ræðumaður, sem hér talaði á undan, vilji að við förum út í það að fella niður skatta eða veita afslátt frá sköttum fyrir aðrar atvinnugreinar sem munu lenda í erfiðleikum vegna þessara samninga? Hvað t.d. um framleiðslu á áburði? Hvað um hjólbarðasólningu? Framleiðslu á tengivögnum og bílasmíði t.d. sem mun eiga undir högg að sækja miðað við þá samninga sem verið var að fjalla um í vetur? Og hvað um framleiðslu á fatnaði sem var í umræðunni? Eru menn tilbúnir að skoða það að fella niður skatta og gjöld af þeim fyrirtækjum sem standa í þessari framleiðslu og mundi það standast samningana um EES? Mig langar að spyrja hv. þm. að þessu.