Atvinnumál farmanna

122. fundur
Föstudaginn 05. mars 1993, kl. 13:46:00 (5703)

     Einar K. Guðfinnsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það felst auðvitað reginmisskilningur í máli hv. 3. þm. Vesturl. vegna þess að einmitt samningurinn um hið Evrópska efnahagssvæði felur í sér verulegan ávinning fyrir hið íslenska atvinnulíf eins og margoft hefur komið fram. Það sem við verðum hins vegar að gera og ættum auðvitað að gera hvort sem samningurinn um hið Evrópska efnahagssvæði verður að veruleika eða ekki, einfaldlega vegna þess að við viljum efla okkar atvinnulíf, þá þurfum við hvernig sem allt annað þróast og allt annað breytist, þá þurfum við auðvitað að búa þannig að okkar atvinnuvegum, m.a. með skattalegum aðgerðum að rekstrargrundvöllurinn í íslensku atvinnulífi sé sem sambærilegastur við það sem gerist í þeim löndum sem við þurfum að heyja samkeppni við. Ég trúi ekki öðru en að við hv. 3. þm. Vesturl. séum alveg sammála um þetta mál. Þetta svarar í raun og veru því sem hv. þm. sagði. Aðalatriði þessa máls er sem sagt það að með því að við erum að keppa á alþjóðlegum mörkuðum þá þurfa hinar skattalegu reglur að vera sem sambærilegastar milli atvinnugreinanna yfir landamærin.
    Ég vek hins vegar athygli á því að það sem þessi þáltill. gerir sérstaklega ráð fyrir er að fara ofan í þessi mál. Það er auðvitað rétt að í Danmörku, eins og ég vakti athygli á, gilda ákveðnir skattafslættir. Nú þurfum við að fá þann samanburð upp á borðið, hvort við með einhverjum öðrum hætti búum þannig að okkar atvinnulífi á þessu sviði að það geti talist sambærilegt við það sem gerist í löndunum í kringum okkur. Ef við ekki gerum það þá horfum við einfaldlega fram á það, eins og hv. þm. veit, að atvinnutækifærin hverfi úr landi. Það getur hins vegar verið að þetta kalli á nýja hugsun en við eigum auðvitað ekki að vera hrædd við það að hugsa hlutina upp á nýtt ef það verður til þess að efla okkar atvinnustarfsemi í landinu.