Atvinnumál farmanna

122. fundur
Föstudaginn 05. mars 1993, kl. 13:51:05 (5706)

     Össur Skarphéðinsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Hér er hið þarfasta mál á ferðinni og ég minnist þess að á sínum tíma átti ég ágætt samstarf við annan hv. flm. meðan við sátum báðir í atvinnumálanefnd Reykjavíkurborgar. En mig langaði aðeins að drepa á nokkur atriði í máli hv. þm. Einars Kristins Guðfinnssonar. Hann ræddi sérstaklega um skipafélag sem hann að vísu tregðaðist við að nefna og þurfti nánast að klípa það upp úr honum með töngum. Hér átti þingmaðurinn vitaskuld við Eimskipafélagið. Hann talaði um það sem aflvaka framfara og burðarás í athafnalífi. En það er vitaskuld rétt, Eimskipafélagið er burðarás í klíku nokkurra fyrirtækja sem hafa hert tökin á íslensku fyrirtækjalífi því miður samfélaginu mjög til óþurftar. Hann talar um að það þurfi að huga að því hvort ekki ætti að bæta samkeppnisstöðu þess með því að hagræða skattareglum til samræmis við það sem er að gerast erlendis. Veit ekki hv. þm. Einar Kristinn Guðfinnsson að hann hefur ásamt stjórnarliðinu og þeim þingmanni sem hér stendur, tekið þátt í því að breyta skattareglum sem m.a. og illu heilli voru líka til góða fyrirtækjum sem stóðu mjög vel, eins og Eimskipafélaginu? Skipti mörgum milljónum. Veit hann ekki að það er líka búið að fella niður aðstöðugjaldið af fyrirtæki eins og Eimskipafélaginu? Hefur það ekki bætt stöðu þess? Ætti það ekki að gera Eimskipafélaginu auðveldara með að ráða íslenska farmenn í vinnu?
    Ég verð að segja, virðulegi forseti, að mér finnst það mikil hneisa að fyrirtæki eins og Eimskipafélag Íslands sem hefur verið borið á höndum þessa þjóðfélags frá upphafi, skuli ekki ganga fram fyrir skjöldu og einsetja sér að ráða ekkert fólk á sín skip nema Íslendinga. Ég vænti þess að hv. þm. Einar Kristinn Guðfinnsson, sem er í hjarta sínu sammála mér, hafi kjark til þess að koma og segja það.