Atvinnumál farmanna

122. fundur
Föstudaginn 05. mars 1993, kl. 14:18:27 (5713)

     Ólafur Þ. Þórðarson (andsvar) :
    Herra forseti. Það þarf mikla einföldun til að koma í ræðustól og segja: Það gerist ekki neitt með EES. ( GAK: Það sagði ég aldrei.) Það er vel ef ræðumaður tekur það til baka því það gerðist mikið með EES. Eitt af því sem gerðist m.a. með EES er að það er hægt að reka ferju milli Vestmannaeyja og Reykjavíkur sem er eign hlutafélags á Kýpur. Það er sú alvara sem blasir við þeim sem nú eiga í vinnudeilum. Ef Íslendingar slíðra ekki sverðin innbyrðis þá töpum við atvinnutækifærum úr landi. Ef Íslendingar bera ekki gæfu til þess að hafa það skynsamlega vinnumálalöggjöf að það sé hægt að halda uppi eðlilegri stöðu í atvinnurekstri í landinu þá töpum við atvinnutækifærum úr landi vegna þess að með þessum samningum sem gerðir voru er hægt að stofna hlutafélög úti í heimi um hvaða rekstur sem er hér heima.
    Það er sagt að þeir eigi að starfa eftir íslenskum kjarasamningum. Það er nú nokkur reynsla fyrir því hvernig það kemur út í Þýskalandi gagnvart þýskum aðilum. Ég er ekki búinn að sjá að það sé mikið vandamál að fara í kringum það. Hvernig var þetta með sjómennina sem Eimskip var með í vinnu? Á hvaða kjörum voru þeir um borð? Var það ekki klagað hingað upp? Hvað var gert? Þeir voru bara reknir. Það var niðurstaðan. ( GHall: Og Íslendingar settir um borð í staðinn.) Íslendingar settir um borð í staðinn. Spurningin er þessi: Verða þeir aftur til að klaga hingað heim ef útlendir aðilar lenda í slíkum aðstæðum? Þeir vita hvað gert er. Þeir verða reknir. Þeir munu ekki klaga næst. Það liggur ljóst fyrir.