Atvinnumál farmanna

122. fundur
Föstudaginn 05. mars 1993, kl. 14:54:29 (5722)

     Guðrún Helgadóttir (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Ég harma hvað hv. 1. þm. Vestf. hefur tekið nærri sér það sem ég sagði hér. Ég held að það sé nú ekki rétt sem hann segir að ég hafi nokkurn tímann haldið því fram að ég vissi allt um alla skapaða hluti. Ég veit hins vegar eitt: Að af 259 farmönnum hjá Eimskipafélagi Íslands eru 80 erlendir. Af öllum skipum Eimskipafélagsins eru fjögur sem sigla undir íslenskum fána. Og rétt nýverið er búið að taka eitt skip undan íslenskum fána. Þannig að ég sé ekki annað en það góða skipafélag sé á hraðbyri í að verða erlent skipafélag sem greiðir ekki krónu til íslenska ríkisins.
    Við erum ekki aðilar að EB sagði þingmaðurinn. Nei, en EES-samningurinn er allur á forsendum EB. Þetta vita menn mætavel og ég las hér orðrétt upp úr umræðum um reglur sem eru í gangi og að öllum líkindum verða samþykktar varðandi EUROS-skráninguna, þar sem heimilað er að helmingur áhafnar undirmanna á farskipum megi vera af erlendu þjóðerni og taki laun samkvæmt kjörum sem tíðkast í þeirra heimalöndum. Það þýðir ekkert að bera á móti þessu. Svona er þetta. Og til hvers er þetta gert? Þetta er auðvitað til þess að koma í samkeppnina.
    Á undanförnum árum veit ég ekki betur en maður hafi lesið það í blöðunum að Eimskipafélag Íslands hafi skilað hundruð milljóna í gróða. (Gripið fram í.) Nú er það farið að tapa. Það má vel vera. Menn hafa sjálfsagt fundið einhverjar nýjar leiðir til þess. En að bera það á borð á Alþingi Íslendinga að það hafi verið nauðsyn fyrir þetta stóra og mikla félag að ráða einhverja ólæsa og óskrifandi menn til þess að komast hjá því að tryggja þeim félagsleg réttindi og sæmileg laun, það nær ekki nokkurri átt að bera það á borð á hinu háa Alþingi og ég held að niðurlæging Eimskipafélagsins blasi við hverjum manni.