Stuðningur við réttindabaráttu Eystrasaltsríkjanna á alþjóðavettvangi

122. fundur
Föstudaginn 05. mars 1993, kl. 16:04:49 (5740)

     Páll Pétursson (andsvar) :
    Frú forseti. Út af síðustu orðum hv. þm. þá vil ég taka það fram að í þessari ferð minni var mér afar vel tekið og ég ber mjög hlýjan hug til bæði þáverandi ráðamanna þessara þjóða og þeirra sjónarmiða sem þeir börðust fyrir og þeirra þjóða sem þeir voru í forustu fyrir.
    Varðandi þetta með öfgasjónarmiðin þá verð ég að segja að aðferðir og sú pólitík sem Lettar ráku í frelsisbaráttu sinni vakti alveg sérstaka aðdáun mína vegna þess að mér fannst þeir fara fram með sigurvænlegustum hætti og þó að ýmsu leyti við langerfiðustu aðstæðurnar því þar voru þjálfaðir stjórnmálamenn í fyrirsvari og mér fannst aðdáunarvert hvernig þeir tóku á málum. Þetta var mjög mismunandi eftir hinum einstöku ríkjum. Ég játa það að sumt af því sem t.d. Landsbergis sagði og gerði fannst mér jaðra við það að vera öfgakennt á sumum sviðum, enda var hann ekki stjórnmálamaður, hann var listamaður og mikils verður sem slíkur. Reyndar hefur hann nú öðlast sess í heimssögunni fyrir frækilega baráttu sína sem stjórnmálamaður líka.