Endurskoðun slysabóta sjómanna

122. fundur
Föstudaginn 05. mars 1993, kl. 16:25:15 (5743)

     Margrét Frímannsdóttir :
    Virðulegi forseti. Ég kem hér til að taka undir þá þáltill. sem hér er til umræðu og þann rökstuðning sem kemur fram í greinargerð með henni. Vissulega er löngu tímabært að taka þær greinar siglingalaga er snúa að bótarétti íslenskra sjómanna vegna vinnuslysa til endurskoðunar. Eins og fram kemur í grg. eru vinnuslys á sjó algengari en vinnuslys í landi og oftar en ekki er um að ræða slys sem hafa í för með sér varanlega örorku þess sem verður fyrir slysinu, enda vinnustaður sjómannsins erfiðari og hættulegri en flestir ef ekki allir vinnustaðir í landi. Það er með öllu óeðlilegt að sambærilegt sakarmat sé lagt til grundvallar á bótagreiðslum vegna slysa hvort sem um er að ræða hættulitla vinnustaði á landi eða vinnustað sjómannsins. Vinnustaður og vinnuaðstaða á landi og sjó er ekki sambærileg.
    Ég ítreka stuðning minn við þessa tillögu sem ég vona að fái jákvæða afgreiðslu, en vara þó við því að hafa nefndina til að endurskoða reglur um bótaréttinn of fjölmenna. Það mætti í greininni sjálfri koma punktur á eftir Sambandi íslenskra tryggingafélaga.