Tækniskóli Íslands

123. fundur
Mánudaginn 08. mars 1993, kl. 15:44:26 (5766)

     Jóna Valgerður Kristjánsdóttir :
    Virðulegi forseti. Hér er verið að samræma enn einn skólann því að geta tekið skólagjöld á framhaldsskólastiginu. Hingað til hefur orðið að setja þetta inn í fjárlög til hvers árs að Tækniskólinn gæti innheimt skólagjöld. Við í stjórnarandstöðunni höfum yfirleitt mótmælt þessu harðlega og vitum raunar að þau mótmæli eiga hljómgrunn líka meðal stjórnarliðanna þannig að þetta er mjög umdeilanlegt atriði að vera að setja það fast inn í lög Tækniskólans að hann geti innheimt skólagjöld. Ég vil taka undir orð hv. þm. Valgerðar Sverrisdóttur hér á undan mér að mér finnst gegna öðru máli um framhaldsskóla heldur en um háskóla, þar sem í háskóla er yfirleitt komið fullorðið fólk sem tekur þá ákvörðun sjálft, sér um sig sjálft að því leyti til, en í framhaldsskóla er oft um að ræða börn eða fólk sem enn er á framfæri foreldra og

jafnvel fleiri en eitt og fleiri en tvö og þetta er mjög mikill kostnaðarauki og ekki hvað síst fólks sem kemur utan af landi.
    Hvað varðar Tækniskólann, þá hefur einmitt nemendum utan af landi verið gert það því nær ómögulegt að sækja það nám vegna þess að þeir eiga ekki lengur rétt á námslánum þar. Það hafa mjög margir komið að máli við mig, t.d. nemendur frá Vestfjörðum, og sagt að það væri gersamlega búið að útiloka það að þeir gætu sótt þetta nám. Það væri ekki nægilegt að segja að nemendur ættu að sækja sér framhaldsnám í skólum í heimabyggð þegar ekki væri boðið upp á það nám sem þeir vildu sækja í heimabyggð. Það er ekki nema einn tækniskóli á Íslandi og þeir sem vilja stunda það nám sem þar er boðið fram, verða að sækja það til Reykjavíkur. Og að útiloka þá síðan frá námslánakerfinu, ég á eiginlega engin orð yfir það. Mér finnst það svo furðuleg ráðstöfun að draga það út úr námslánakerfinu að nemendur sem eru í Tækniskólanum geti fengið þar námslán, þar með er algerlega verið að útiloka þá frá þessu námi. Það sýnir sig líka í þeim samdrætti sem hefur orðið á nemendum í skólanum. Ég er alveg sannfærð um það að orsök þess að nemendum hefur fækkað m.a. í undirbúningsdeildunum er að kenna þeim breytingum sem gerðar voru á Lánasjóði ísl. námsmanna á síðasta ári.
    Það er spurning um hversu há þessi skólagjöld eiga að vera. Það hefur ekki komið fram og kemur ekki fram í þessu frv. en það má alveg búast við því að það séu a.m.k. 5--6 þús. kr. á önn og það munar talsvert um það hjá þeim sem ekki einu sinni eru lánshæfir í Lánasjóðnum.
    Það var mikið rætt um stöðu iðn- og verkmenntunar í máli sem var hér á undan þessu og menn töluðu þar fjálglega um að efla iðn- og verkmenntun, en gerðirnar fylgja ekki þeim orðum því að eins og búið hefur verið að Tækniskólanum yfirleitt, þá er það ekki í samræmi við það að hér sé verið að styðja við iðn- og verkmenntun í landinu. Það má líka geta þess að í þessum skóla, Tækniskólanum, er mikið af fullorðnu fólki sem er að ná sér í réttindi og bæta við sig þekkingu. Það er fullorðið fólk og fjölskyldufólk og það þarf að taka sig upp og sækja þennan skóla, eins og ég sagði áðan, jafnvel á annað landshorn. Það hlýtur að draga úr því að fók leiti þeirra leiða þegar ekki er boðið upp á neina aðstoð til þess.
    Ég vil að öðru leyti gagnrýna það mjög að hér sé verið að halda áfram þeirri stefnu og festa þá stefnu í sessi að setja á skólagjöld á framhaldsskólastiginu, því að ég held að það muni ekki góðri lukku stýra í sambandi við framhald skólastefnu hér yfirleitt.