Stjórnarfrumvörp um heilbrigðismál

124. fundur
Þriðjudaginn 09. mars 1993, kl. 13:36:43 (5775)

     Svavar Gestsson :
    Virðulegi forseti. Í fjölmiðlum undanfarna daga hafa birst fréttir um verulegan ágreining á milli stjórnarflokkanna um frv. til laga um breytingar á lyfsölu í landinu. Að því er talsmenn Alþfl. segja benda upplýsingar fjölmiðlanna til þess að Alþfl. sé frjálshyggjulegri en Sjálfstfl. og kemur það þingmönnum yfirleitt ekki á óvart. Fyrir utan frv. um breytingu á lyfsölulögum eru þrjú önnur frv. á sviði heilbrigðismála afvelta á milli stjórnarflokkanna. Það er í öðru lagi frv. um breytingu á lögum um heilbrigðisþjónustu, þar sem teiknar til mikils ágreinings á milli stjórnarflokkanna um stjórnarfyrirkomulag svokallaðra sveitarfélagaspítala, t.d. Borgarspítalans. Í þriðja lagi er um að ræða frv. til laga um varnir gegn vímuefnum, þar sem ekki hefur tekist samkomulag á milli flokkanna, og í fjórða lagi er um að ræða tóbaksvarnafrv. sem mjög lengi hefur verið tilbúið og flokkarnir hafa ekki komið sér saman um hvernig flutt verði.
    Ég hafði hugsað mér, virðulegi forseti, að leggja spurningu fyrir hæstv. heilbrrh. en hann er fjarri og það breytir kannski ekki miklu í þessari stöðu. Hins vegar vildi ég beina máli mínu til hæstv. forsrh. og spyrja hann: Gerir hann sér vonir um að þessi fjögur frumvörp verði flutt sem stjfrv. og afgreidd á yfirstandandi þingi?