Tækniskóli Íslands

124. fundur
Þriðjudaginn 09. mars 1993, kl. 14:58:26 (5804)

     Gunnlaugur Stefánsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það er ástæðulaust að endurtaka það sem kom fram í andsvari mínu við ræðu hv. þm. Svavars Gestssonar í gær þess efnis að hér væri ekki verið að leggja ný gjöld á nemendur í Tækniháskóla Íslands. Þvert á móti væri að samræma í frv. lög um Tækniháskólann því sem gildir um aðra skóla og nú hefur hv. þm. upplýst að hann hafi átt aðild að slíkum ákvæðum í öðrum lögum um aðra skóla og þess vegna er vart annað að skilja á máli hans en hann taki því undir þetta sjónarmið sem kemur hér fram í 2. gr. frv. Um það þarf því ekki lengur að deila.
    Í öðru lagi er alveg ljóst af þessum tillögum sem liggja til breytinga í þessu frv. að ekki er verið á neinn hátt að breyta til um kostnaðarábyrgð ríkissjóðs af Tækniháskólanum. Það kemur t.d. greinilega fram í umsögn fjmrn. og er rétt að vekja athygli á skilningi þess á þessu frv. þar sem segir greinilega að hér sé ekki um að ræða nein áhrif á útgjöld ríkissjóðs vegna skólans. Eins og kemur fram í grg. með þessu frv. mun skólinn áfram verða á rekstrarábyrgð ríkissjóðs, en það verði ákveðið í fjárlögum eins og t.d. gildir um Kennaraháskóla Íslands með hliðsjón af lögum sem sett voru um hann árið 1992 og trúi ég því að hv. þm. Svavar Gestsson hafi einhverja aðild átt að þeim málatilbúnaði líka. Ég held að það þurfi því ekki að vera með neinar stórar yfirlýsingar um að hér sé verið að marka tímamót. Það er ekki. Aftur á móti er ég sammála hv. þm. um að við þurfum að taka skólamálin til umfjöllunar á öðrum grundvelli og það með heildarendurskoðun í huga og ég veit að við erum sammála um það að þar þarf að taka á ýmsu.