Útvarpslög

124. fundur
Þriðjudaginn 09. mars 1993, kl. 18:47:45 (5832)

     Valgerður Sverrisdóttir :
    Hæstv. forseti. Ég get tekið undir síðustu orð síðasta ræðumanns. Ekki endilega að það sé ekki nærri því eins vont og ég hefði átt von á en ég get sagt að mér finnst þetta vera hið þokkalegasta frv. og engin sérstök ástæða til að hafa mjög mörg orð um það á þessu stigi málsins. Nú vill svo til að formaður þeirrar nefndar sem samdi frv. situr í hv. menntmn. þannig að þar munum við geta átt orðastað við hann þegar við förum að vinna málið í nefnd.
    Því er ekki að neita að þetta frv. gengur svolítið í frjálsræðisátt en þó innan þeirra marka sem mér finnst að séu ásættanleg. Útvarpsréttarnefnd fær með þessu frv. aukin verkefni og t.d. það að veita leyfi til

starfrækslu svonefndra endurvarpsstöðva auk eftirlitsþáttarins sem síðasti hv. ræðumaður nefndi.
    Ég velti því fyrir mér þegar talað er um að meiri hlutinn sé íslenskt eða evrópskt dagskrárefni hvort ekki sé hægt að hafa það bara þannig að 45% væri frá hinum Evrópuþjóðunum og íslenskt um 6--7%, svo maður taki öfgafullt dæmi. Þetta ákvæði, sem kemur fram í 4. gr. frv., sló mig svolítið. Svo kemur þarna alveg yndisleg setning eða málsliður þar sem segir: ,,Skal lögð áhersla á að allt tal og texti sé á lýtalausu íslensku máli.`` Þá er spurningin: Hvað telst lýtalaust íslenskt mál? Er ekki því miður æðimikið af því sem er sent í loftið í dag eitthvað annað en lýtalaust íslenskt mál? Mér finnst því miður að áherslur í ýmsum þessum útvarpsstöðvum og jafnvel Stöð 2 líka séu að verða dálítið útlenskar. Það er svo einkennilegt að þegar nýtt fólk kemur til starfa á þessum stöðvum byrjar það strax með þessar sérkennilegu áherslur sem mér finnast ekki hljóma íslenskt. Þetta verð ég ekki vör við á ríkisstöðvunum og ég hef náttúrlega sérstakt uppáhald á þeim stöðvum. Það er allt í lagi að það komi fram. En þetta er mál sem ég hefði gjarnan viljað ræða í hv. nefnd.
    Í 5. gr. er svo nokkuð sem ég átta mig ekki alveg á vegna þess að þar stendur, með leyfi hæstv. forseta: ,,Auglýsingar skulu vera auðþekkjanlegar sem slíkar og vera skýrt afmarkaðar frá öðru dagskrárefni, með myndskilti eða hljóðmerki og skulu þær fluttar í sérstökum almennum auglýsingatímum á milli dagskrárliða.`` Svo kemur: ,,Heimilt er að rjúfa einstaka dagskrárliði með auglýsingatíma . . .  `` Mér finnst þetta reka sig hvað á annars horn. Ef það er heimilt að rjúfa dagskrárliði --- sem er nýmæli, það er ekki í gildandi lögum --- erum við þar með ekki með þessa auglýsingatíma á milli dagskrárliða? Þetta er kannski einhver meinloka í mínu höfði en hv. 5. þm. Norðurl. e. getur eflaust sagt okkur eitthvað meira um þetta.
    Núna er í fyrsta sinn verið að setja inn ákvæði um hlutfall auglýsingatíma, að hann sé ekki yfir 15% daglegs útsendingatíma. Það hefði verið fróðlegt að vita upp í hvað auglýsingatíminn getur farið hjá okkur eins og þetta hefur verið t.d. þegar jólaauglýsingarnar hafa verið hvað mestar. E.t.v. hefur það verið athugað og hægt að fá upplýsingar um það. En mér segir svo hugur að það geti verið þó nokkuð hátt hlutfall.
    Ég var búin að gera athugasemd við síðasta málsliðinn í 5. gr. um að hafa áhrif á fólk neðan marka meðvitaðrar skynjunar. Mér fannst það eitthvað sem ég áttaði mig ekki á. En eins og ég segi ég vil ekki vera að lengja þessa umræðu. Það er orðið nokkuð áliðið dags og við fáum tækifæri til að fjalla um málið í nefnd. En ég vildi taka það fram að mér sýnist að það séu allar líkur á því að ég geti stutt þetta frv.