Íslensk endurtrygging

124. fundur
Þriðjudaginn 09. mars 1993, kl. 18:53:08 (5833)

     Heilbrigðisráðherra (Sighvatur Björgvinsson) :
    Virðulegi forseti. Frv. það sem ég mæli hér fyrir er samið að tilhlutan Íslenskrar endurtryggingar, en stjórnin óskaði eftir því við heilbr.- og trmrh. að hann beitti sér fyrir lögfestingu frv.
    Samkvæmt ákvæðum frv. skal stofna hlutafélagið Íslenska endurtryggingu hf. og skal það taka við rekstri, eignum og skuldum félagsins Íslensk endurtrygging, sem nú starfar samkvæmt lögum nr. 43/1947, með síðari breytingum. Ástæðan fyrir þessari breytingu er m.a. sú að auðvelda ríkisstjórninni að selja eignarhlut ríkisins í félaginu. Framkvæmdanefnd um einkavæðingu ríkisstofnana hefur unnið að því að selja þennan eignarhlut en að mati stjórnar félagsins er slíkt ekki unnt nema að lögum um félagið sé breytt.
    Í frv. til laga um breytingar á lagaákvæðum á sviði heilbrigðis- og tryggingamála vegna aðildar að samningi um Evrópskt efnahagssvæði er gert ráð fyrir tveimur breytingum á lögum nr. 43/1947. Þetta frv. er enn til meðferðar í hv. heilbr.- og trn. en ég vænti þess að það komi fljótlega til 2. umr. í þinginu. Annars vegar er gert ráð fyrir að felld verði úr gildi ákvæði um skattfrelsi félagsins og hins vegar er gert ráð fyrir að niður falli einkaréttur félagsins á stríðsslysatryggingum.
    Með tilliti til þess að þetta frv. hljóti samþykki telur stjórnin rétt að breyta rekstrarformi félagsins þannig að einstakir eigendur áhættufjár í félaginu eigi auðveldara um vik að ráðstafa eignarhlut sínum í félaginu og gera félagið jafnframt hæfara til þess að starfa í breyttu rekstrarumhverfi.
    Í greinargerð með frv. er rakin í stuttu máli saga löggjafar um Íslenska endurtryggingu og tel ég ástæðulaust að fara fleiri orðum þar um en vísa hv. þm. til þess sem þar segir.
    Megintilgangur frv. er hins vegar sá, eins og fram hefur komið, að breyta Íslenskri endurtryggingu í hlutafélag og var miðað við að breytingin ætti sér stað 1. jan. 1993. Þetta er gert með þeim hætti að stofna hlutafélag sem yfirtekur rekstur, eignir og skuldir Íslenskrar endurtryggingar. Gert er ráð fyrir að heilbr.- og trmrh. hafi veg og vanda af framkvæmdinni en heimilt er honum að fela núv. stjórn að annast þennan þátt. Þá skal jafnframt frá og með áramótum, eins og frv. er úr garði gert, gefa út hlutabréf til allra áhættufjáreigenda í félaginu og verður nafnverð bréfa hvers þeirra jafnt nafnverði áhættufjárskírteina

þeirra í félaginu. Stjórnarmenn verða væntanlega stofnendur hins nýja hlutafélags með undirritun stofnsamnings og samþykkta.
    Tilgangurinn var að boða til aðalfundar hluthafa fyrir lok febrúar 1993 og átti þar að kjósa nýja stjórn sem taka átti við stjórnartaumum. Hins vegar verður einhver bið á því þar sem frv. hefur ekki enn hlotið afgreiðslu eins og gert var ráð fyrir þegar frv. var samið. Það kemur fram í greinargerðinni og víðar að stefnt var að því að frv. gæti hlotið samþykki fyrir febrúarlok.
    Þá er gert ráð fyrir að starfsmenn félagsins hafi rétt til starfa hjá hlutafélaginu en starfsmenn þess eru nú tíu.
    Á árinu 1992 hefur áhættufé félagsins verið þrefaldað með heimild í lögum og þar sem gert er ráð fyrir að áhættufjáreigendur fái sömu fjárhæð í hlutafé og þeir eiga í áhættufé verður heildarhlutafé hins nýja hlutafélags 338.353.200 kr. Eigið fé félagsins að meðtöldum áhættusjóði nam í árslok 1991 424.933.436 kr. Helstu eigendur áhættufjár í félaginu nú eru eftirtaldir aðilar: Ríkissjóður 37,20%, Sjóvá-Almennar tryggingar hf. 15,47%, Tryggingamiðstöðin hf. 11,14%, Burðarás hf. 7,12%, Samvinnutryggingar gt. eiga 5,06%, Brunabótafélag Íslands 3,94% og Tryggingastofnun ríkisins 2,73%.
    Í greinargerðinni eru athugasemdir við einstakar greinar frv. og tel ég ástæðulaust að lesa þær upp hér í framsöguræðu en mun að sjálfsögðu reyna að svara spurningum um einstakar greinar ef einhverjar eru.
    Þá er fylgiskjal með frv. frá fjárlagaskrifstofu fjmrn. umsögn um frv. til laga um stofnun hlutafélags um Íslenska endurtryggingu og vísa ég einnig til þeirrar umsagnar.
    Virðulegur forseti. Ég sé ekki ástæðu til að hafa fleiri orð um málið á þessu stigi en legg til að að lokinni þessari umræðu verði því vísað til 2. umr. og hv. heilbr.- og trn.