Hollustuhættir og heilbrigðiseftirlit

125. fundur
Miðvikudaginn 10. mars 1993, kl. 13:45:04 (5852)

     Guðmundur Bjarnason :
    Hæstv. forseti. Eins og fram kom í framsöguræðu hæstv. ráðherra og reyndar í grg. með frv. sem hér liggur nú fyrir um breytingu á lögum um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit er það að meginhluta til fram komið vegna samningsins um Evrópska efnahagssvæðið og sjálfsagt óhjákvæmilegt, eins og margt annað, að lögtaka hér ný ákvæði ef sá samningur á eftir að taka endanlegt gildi með þeim breytingum sem þó er nú þegar vitað að eiga eftir að koma aftur fyrir Alþingi.
    Vissulega hljótum við að vilja ganga svo frá okkar málum á sviði hollustuhátta og heilbrigðiseftirlits varðandi mengunarvarnir og umhverfismál, eins og hér er aðallega til umfjöllunar, að viðunandi sé og við getum verið sátt við það bæði fyrir okkar hönd, fyrir okkar daglega starf og atvinnulíf, og svo auðvitað líka að það sé svo að málum staðið að við getum borið höfuðið hátt og kinnroðalaust gagnvart öðrum þjóðum. Það leiðir þó hugann að því að sjálfsögðu þegar fjallað er um mál sem þessi að við þurfum að gæta að því að það sem við erum að lögtaka sé framkvæmanlegt og við þurfum einnig að gera okkur grein fyrir því hvernig að því verður staðið og hvað það muni kosta að ganga til verkefna eins og hér er gert ráð fyrir.
    Nú er það svo að verulegur kostnaður fylgir nú þegar settri mengunarvarnareglugerð sem byggist á gildandi lögum um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit. Stærstu kostnaðarliðirnir þar eru sjálfsagt samfara því að ganga svo frá frárennsli og skolpi, svo og sorpi, að viðunandi sé og sá kostnaður leggst allra þyngst á sveitarfélögin. Í grg. sem frv. fylgir er fyrst og fremst gerð grein fyrir þeim breytingum sem eru á lagatextanum og ekki mikið fjallað um þær verkanir og þau áhrif sem frv. kann að hafa og um þann kostnað sem af því kann að leiða. Það er hins vegar gert nokkuð ítarlega í umsögn sem fylgir greinargerðinni frá fjármálaskrifstofu fjmrn. eins og lög gera ráð fyrir að slíkt kostnaðarmat fylgi nýjum frumvörpum sem eru lögð fyrir hv. Alþingi.
    Hvað varðar nýju þættina í lagatextanum er, eins og fram kom hjá hæstv. ráðherra, verið að tala um að í okkar lagasetningu séu ákvæði um að samræma okkar reglugerðir og okkar lagasetningu alþjóðasamningum sem Ísland er aðili að annars vegar og svo nokkur atriði um endurskoðun starfsleyfa um áhættumat og um frekari ákvæði er varða viðmiðunarmörk varðandi gæði vatns og frágang um hreinsun skolps og viðmiðunarmörk hvað það varðar.
    En ef við lítum aðeins á þær afleiðingar sem af þessu kunna að verða, þá langar mig að spyrja ráðherra svolítið nánar út í það hvað hæstv. ráðherra og ráðuneyti hans hafi skoðað þau mál nánar. Þrátt fyrir það, sem kemur ítrekað fram í umsögn fjmrn., að þetta leiði ekki til mikils kostnaðarauka ríkisins, er hins vegar gert ráð fyrir að það kunni að verða verulegur kostnaðarauki bæði fyrir atvinnulífið og sveitarfélögin. Þá langar mig að spyrja hvort hæstv. ráðherra og ráðuneyti hans hafi eitthvað velt því fyrir sér hvort hið opinbera, ríkið sjálft, geti að einhverju leyti komið inn í það mál og aðstoðað við útvegun fjármuna. Er hugsanlegur aðgangur að einhverjum lánasjóðum til þess að standa undir slíkum kostnaði og annað sem þessum útgjaldaþáttum hlýtur að fylgja?
    Það er ljóst að þessar lagabreytingar munu hafa nokkur áhrif á framkvæmdir vegna fiskvinnslunnar í landinu, þ.e. frárennsli vegna fiskvinnslustöðva. Við vitum að því miður er svo háttað eins og sakir standa að það eru miklir erfiðleikar í þeirri atvinnugrein og hætt við að það sé ekki auðvelt fyrir fiskvinnsluna og sjávarútveginn að leggja á sig auknar byrðar af þessum sökum. Þá má líka spyrja hæstv. ráðherra um það hvaða tímafrestur sé af hans hálfu hugsaður í sambandi við framkvæmd þessa frv. ef það verður að lögum.
    Það segir í grg. frá fjárlagaskrifstofunni að þessar breytingar komi ekki til framkvæmda fyrr en umhvrh. hefur sett nýja mengunarvarnareglugerð. Þó held ég, ef ég hef skilið rétt við lestur í gegnum þessa viðauka sem fylgja EES-samningnum, að þar sé á nokkrum stöðum tekið fram að ákvæði sem þetta varða skuli koma til framkvæmda á Íslandi frá 1. jan. 1995. Þá langar mig til að spyrja hæstv. ráðherra hvort það sé sá frestur sem við höfum til þess að ganga frá málunum þannig að viðunandi sé og í samræmi við lög eða hvort hægt sé að gefa þar eitthvað lengri frest á.
    Nú kemur það líka fram að í tilskipunum sem settar hafa verið af hálfu Evrópubandalagsins og við erum að undirgangast með samningnum um EES og með þessari lagasetningu, t.d. hvað varðar hreinsun skolps frá þéttbýli, er frestur ýmist gefinn til ársins 2000 eða 2005 eftir því hve áhættan er mikil eða mengunin talin mikil frá þéttbýlinu. Það fer eftir íbúafjölda og öðrum slíkum viðmiðunum. Þá er a.m.k. sýnilegt að varðandi ákveðna þætti þessarar reglugerðar og lagasetningar höfum við lengri frest en til 1995, en eitthvað af þessu kann að þurfa að vera búið að framkvæma innan tveggja ára.
    Eins og ég nefndi áðan er ljóst að verulegur hluti af kostnaði fellur hér til og er því miður ekkert litlar upphæðir. Eftir því sem mér telst til eru það kannski 6 til 7 milljarðar kr. sem sýnilegir eru fyrir utan það sem kann síðan að vera í rekstrarkostnaði og kostnaði til lengri tíma litið sem erfitt er að reikna út og átta sig á á þessu stigi. Þá þegar er sýnilegt að ýmiss konar stofnkostnaðarframkvæmdir kosta marga milljarða kr. og stærstur hlutinn af því er vegna þegar settrar reglugerðar og gildandi laga en kannski u.þ.b. 2 milljarðar kr. sem álitið er að tengist beint þeim ákvæðum sem fylgja þessu frv. og er lagt til að lögfesta í viðbót. Þá langar mig aftur að ítreka þá spurningu til hæstv. ráðherra hvernig hið opinbera getur komið að því að auðvelda aðilum, einkum sveitarfélögum en einnig atvinnulífi, að standa við þessar kröfur sem hér eru fram settar.
    Ég man eftir því að við höfum áður rætt það á hinu háa Alþingi að það sé nauðsynlegt með einhverjum leiðum að aðstoða sveitarfélögin eða samræma vinnubrögð og finna farveg fyrir þessar framkvæmdir, sérstaklega hvað varðar frágang á sorpi, urðun og brennslu sorps. Það eru stór verkefni. En stærsti kostnaðarliðurinn er þó að koma frárennsli út fyrir stórstraumsfjöruborð sem er auðvitað ekki nýtt mál en vissulega mál sem við þurfum að huga að og skoða ítarlega.
    Hæstv. forseti. Ég vildi aðeins nefna þessa þætti og þau atriði sem mér finnst við þurfum að skoða nánar við þessa lagasetningu. Nú er mér ljóst að þetta mál verður auðvitað skoðað betur í nefnd sem fær málið til umfjöllunar og þá sjálfsagt leitað svara við spurningum sem upp kunna að koma en fróðlegt væri ef hæstv. ráðherra gæti farið örlítið nánar yfir framkvæmdaatriðin. Mér fannst hann fyrst og fremst gera í framsöguræðu sinni grein fyrir þeim tæknilegu breytingum sem eru á lagatexta en það sem skiptir máli er auðvitað hvernig okkur gengur síðan að standa við hann og hvernig við stöndum straum af þeim kostnaði sem hlýtur að fylgja framkvæmdinni.