Dýravernd

125. fundur
Miðvikudaginn 10. mars 1993, kl. 15:40:01 (5864)

     Pálmi Jónsson :
    Virðulegi forseti. Það frv. sem hér er til 1. umr. hefur þann tilgang að leitast verði við að tryggja góða meðferð á dýrum og búa þannig úr garði reglur og lög sem fara beri að við umgengni við dýr að mannsæmandi sé. Ég tel þetta góðan tilgang og ég get tekið undir það að frv., eins og það er úr garði gert, eigi að geta þjónað þessum tilgangi, a.m.k. að verulegu leyti og vonandi í sem bestu horfi.

    Ég vil gjarnan taka undir það sem komið hefur fram í umræðunni að almennt séð tel ég að meðferð á dýrum, a.m.k. meðferð á húsdýrum, hafi farið batnandi hér á landi á síðari árum og síðari áratugum og sé auðvitað allt annar svipur á því en það var fyrir mörgum áratugum. Ég er hins vegar ekkert viss um að þetta sé alveg algilt þannig að það finnast oft undantekningar frá þessari meginreglu og ég er enn fremur uggandi um að í sumum tilvikum sé meðferð ekki sem skyldi á þeim dýrategundum sem ekki eru kölluð hin venjulegustu húsdýr.
    Hvað sem þessu líður þá tel ég að við höfum heyrt af nokkrum dæmum sem sanna að það er full þörf dýraverndar og full þörf eftirlits eins og þetta frv. gerir ráð fyrir.
    Ég ætla ekki að ræða þetta frv. í mörgum efnisatriðum, aðeins benda á örfá atriði sem e.t.v. hafa komið fram, en ég gat ekki verið við alla umræðuna. Það er einkum að frv. þetta skarast við aðra löggjöf í býsna ríkum mæli. Það skarast við landbúnaðarlöggjöfina og verkefni landbrn. og það skarast jafnvel við verkefni sem eru á verksviði dómsmrn.
    Þetta er atriði sem ég teldi ástæðu til að væri tekið aðeins til athugunar í meðferð málsins í þingnefnd að kanna það hvort unnt væri að skera að einhverju leyti skarpari línur á milli verksviða ráðuneyta heldur en þetta frv. gerir. Ég þarf ekki að skýra það í mörgum efnum að þetta skarar mjög verksvið landbrn. og landbúnaðarlöggjöfina, það nægir að nefna t.d. 5., 6. og 11. gr. o.s.frv. Það er t.d. í 5. gr. kveðið á um eftirlit með því að búfé hafi nægilegt fóður og vatn og síðan er vitnað til þess að það þurfi að líta eftir búfé reglulega og daglega ef nauðsyn krefur að mati forðagæslumanns, ráðunautar eða dýralæknis. Allt eru þetta starfsmenn á verksviði landbrn. og falla undir landbúnaðarlöggjöfina.
    Í 6. gr. er talað um samráð við landbrh. um setningu reglugerðar um tiltekin atriði og í 11. gr. er fjallað um málefni sem að hluta til falla inn í lög um afréttarmálefni. Þessi efni eru nokkuð flækt saman og ég hefði talið að þrátt fyrir vandaða vinnu við samningu þessa frv. væri ástæða til að kanna það hvort hægt væri að gera þarna skýrari skil á milli og það er nú þó svo að í sumum tilvikum virðist vera nokkuð erfitt að greina umhvrn. frá öðrum ráðuneytum eða verksvið þess frá verksviðum annarra ráðuneyta.
    Af því ég nefndi verksvið dómsmrn. þá sýnist mér að 12. gr. frv. falli nokkuð að verksviði þess ráðuneytis, þ.e. umferðarlaga, því þar segir að við flutning á dýrum skuli þess gætt að útbúnaður farartækis o.s.frv. sé góður og við hæfi hverju sinni. Síðan segir að umhvrh. setji í reglugerð nánari fyrirmæli um flutning á dýrum.
    Að því er lýtur að tækjabúnaðinum þá er það tvímælalaust á verksviði dómsmrn. samkvæmt umferðarlögum og væri einnig ástæða til þess að líta á það hvort hægt væri að gera skarpari skil á milli. Nú er mjög tíðkaður flutningur búfjár á bílum og yfirleitt hefur það gengið þannig að ekki hafa orðið óhöpp af eða slys, ekki þar sem ég þekki. Ég sé að dýralæknir hér, hv. þm. Árni M. Mathiesen grettir sig, en ég veit ekki mikið um að það hafi orðið slys eða óhöpp af flutningi búfjár í mínu byggðarlagi og er það vel. Ég get auðvitað ekki sagt um hvernig það er annars staðar á landinu. En ég sé það hins vegar og verð þess var að það er sífellt verið að setja reglur af hálfu dómsmrn. sem torvelda öryggi slíkra flutninga þrátt fyrir það að ekki verði beint séð að það tryggi eitthvað sérstaklega hagkvæmni dýranna sem flutt eru. Það tel ég illa farið og ég er þess vegna ekkert að drótta því að umhvrn. kynni að setja einhverjar vitlausari reglur um þetta efni heldur en dómsmrn. En ég vildi samt sem áður að það væri litið á það hvort þessi efni sem skarast við verksvið annarra ráðuneyta, væru könnuð frekar en gert hefur verið.
    Þetta kom fram í máli hv. 1. þm. Norðurl. v. að því leyti, að því er varðar landbúnaðinn, að hann óskaði eftir því að frv. yrði sent til umsagnar landbn. þingsins og ég tel að það sé ekkert nema gott um þá tillögu að segja.
    Þetta var aðalefni þess sem réði því að ég óskaði eftir að taka þátt í þessari umræðu, en ég sé t.d. í 19. gr. um dýraverndarnefnd sem setja skal í hverju umdæmi héraðsdómstóls að þá hefði ég talið fara betur á því að það væri sett í lögin hvernig sú nefnd skuli skipuð, en ekki eins og í frumvarpsgreininni segir, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Umhverfisráðherra setur í reglugerð nánari fyrirmæli um skipan nefnda þessara og val manna í þær.``
    Þetta er óvenjulegt í lagasetningu og miklu réttara að setja í lögin hverjir skuli tilnefna eða frá hvaða aðilum séu tilnefndir menn í þessar nefndir. Ég geri ráð fyrir að það hljóti að koma til álita búnaðarsambönd, héraðsnefndir eða einhver slík samtök á heimavettvangi sem tilnefna menn í slíkar nefndir og fer betur á því í lagasetningu að það sé kveðið þar á um málið heldur en það sé í lausu lofti og látið í hendur ráðherra að fara með það án nánari skilmála. Í þessu felst vitaskuld ekki vantraust á núv. hæstv. umhvrh. eða nokkurn annan sem kynni að gegna því starfi, en lög eru auðvitað sett án þess að það sé verið með þeim að taka tillit til einhvers tiltekins ráðherra sem gegnir starfi á þeirri stundu svo að það kemur því máli ekkert við.
    Ég skal ekki fara um málið að öðru leyti fleiri orðum en ég tel að tilgangur frv. sé tímabær, nauðsynlegur og þarfur og ég tel að það sé eðlilegt að reynt sé að vanda þessa lagasmíð eins og kostur er til þess að tilganginum verði náð.