Verndun keilustofnsins

126. fundur
Fimmtudaginn 11. mars 1993, kl. 10:33:04 (5869)

     Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson) :
    Herra forseti. Í tilefni af þessari fsp. hv. 17. þm. Reykv. hef ég óskað eftir áliti Hafrannsóknastofnunar um þetta álitaefni. Þar segir m.a. þetta:
    ,,Það er ekki fyrirsjáanlegt hver viðbrög stofnsins verða við skyndilegri aflaaukningu, en aflinn á árinu 1991 fór fram úr sögulegu hámarki. Það eru dæmi til þess að skyndileg sóknaraukning í fiskstofn með takmarkaða afrakstursgetu leiði til mikillar aflaaukningar um skamman tíma, en afli hrapi svo skyndilega niður aftur og verði mjög lítill. Hafrannsóknastofnun lagði því til við sjútvrn. að keiluafli færi ekki yfir 10 þús. tonn á ári meðan viðbrögð stofnsins við þeirri veiði væru að koma í ljós. Stærðardreifing hennar er mismunandi eftir veiðarfærum. Af lengdarmælingum á keilu síðustu árin verður ekki ráðið að farið sé að ganga á stofninn. Stutt er síðan Íslendingar gáfu sig að sérstökum keiluveiðum. Fyrsta árið var aflinn á sóknareiningu mestur en tvö næstu árin, 1990--1991, stóð hann í stað. Að svo miklu leyti sem gögn frá árinu 1992 eru fyrir hendi benda þau til verulegs samdráttar í afla á sóknareiningu. Það verður vart af því ráðið að vegna þess eins sé keilustofninn ofveiddur.
    Í þessu sambandi er rétt að benda á að keila er mjög útbreidd við Ísland og fæst á línu og í botnvörpu við annan veiðiskap á ýmsum svæðum allt í kringum landið. Sókn hinna sérstöku keiluveiða hefur hins vegar aðallega beinst að takmörkuðu svæði út af suðurströndinni. Þótt afli á sóknareiningu minnki á þessu afmarkaða svæði þarf það ekki að þýða að stofninn sem slíkur sé ofveiddur.``
    Þetta segir í áliti Hafrannsóknastofnunar að gefnu tilefni þeirrar fsp. sem hér hefur verið borin fram. Hafrannsóknastofnun mun halda áfram að fylgjast gaumgæfilega með þessum stofni og ráðuneytið bregðast við í samræmi við ráðgjöf stofnunarinnar að þessu leyti.
    Að því er varðar afla útlendinga og þar á meðal Færeyinga hefur það sjónarmið verið ríkjandi af hálfu ráðuneytisins að ganga ekki um of nærri Færeyingum á þessum tímum þar sem þeir hafa átt og eiga við mjög alvarlegar efnahagsþrengingar að etja. Eigi að síður hefur kvóti þeirra hér í landhelginni verið minnkaður tvö undangengin ár.