Ár aldraðra

126. fundur
Fimmtudaginn 11. mars 1993, kl. 11:20:39 (5892)

     Heilbrigðisráðherra (Sighvatur Björgvinsson) :
    Virðulegur forseti. Það er mjög slæmt að hv. þm., sem manna harðast hefur barist gegn samstarfi Íslands við Evrópubandalagið, skuli ekki gera sér grein fyrir því að ár aldraðra 1993 er einvörðungu bundið við þau lönd sem í Evrópubandalaginu eru. Ekkert EFTA-land hefur tekið ákvörðun um að gerast aðili að því samstarfi um ár aldraðra sem á sér stað innan Evrópubandalagsins. Eina aðferðin til að tryggja það að Ísland gerðist aðili að því átaki sem á sér stað í málefnum aldraðra á vegum Evrópubandalagsins væri að sjálfsögðu að Ísland gerðist eitt af aðildarríkjum Evrópubandalagsins.
    Ég vænti þess vart að hv. þm. sé að mæla fyrir því. En það sýnir bara á hvílíkum misskilningi og vanþekkingu fsp. hans er byggð. Ég ítreka að ekkert ríki utan Evrópubandalagsins hefur ákveðið að standa að því sem kallað er Öldrunarár Evrópu 1993 í löndum Evrópubandalagsins. Hv. þm. ætti að gera sér fulla grein fyrir því að eini möguleikinn fyrir Ísland til að gerast aðili að Öldrunarári Evrópu 1993, væri ef það gerðist aðili að Evrópubandalaginu sem hingað til hefur verið aðeins akademískt spursmál hér á landi.