Endurskoðun laga um Lánasjóð íslenskra námsmanna

126. fundur
Fimmtudaginn 11. mars 1993, kl. 11:46:51 (5912)

     Fyrirspyrjandi (Valgerður Sverrisdóttir) :
    Hæstv. forseti. Eins og flestum mun vera kunnugt, þá stendur nú yfir af hálfu menntmrn. vinna við mótun nýrrar menntastefnu. 18 manna nefnd sem hæstv. menntmrh. skipaði hefur skilað áfangaskýrslu

sem hefur fengið frekar jákvæðar móttökur í þjóðfélaginu þó að þar sé ýmislegt sem ekki er fullmótað og annað umdeilanlegt eins og gengur.
    Hæstv. menntmrh. mun sennilega á næsta þingi leggja fram frv. til breytinga á lögum um skólakerfið í landinu. Nú þegar hefur hæstv. menntmrh. lagt fram frv. til laga um breytingar á lögum um framhaldsskóla sem heimilar ráðherra, ef að lögum verður, að efna til tilraunastarfs í starfsnámi og víkja þá frá ákvæðum laga um framhaldsskóla ef þörf krefur. En það sem einkennir þá áfangaskýrslu sem nú liggur fyrir um mótun nýrrar menntastefnu er m.a. það að lagt er til að fallið verði frá þeirri stefnu að allt almennt nám í framhaldsskóla sé byggt þannig upp að það nýtist sem hluti af stúdentsprófi og þróað verði stutt og langt starfsnám í einstökum greinum með virkri þátttöku atvinnulífsins. Þá kemur fram að tryggja þurfi að nemendur eigi kost á markvissum undirbúningi undir nám á háskólastigi í framhaldi af iðn- og starfsnámi og vitna ég þar til tæknistúdentsprófsins.
    Þá er í skýrslunni lögð aukin áhersla á starfsnám og sagt að leita beri ráða til að auka áhuga ungs fólks á verkmenntun. Öllum má vera ljóst að það skiptir miklu máli þegar nemandi velur sér námsbraut, hvort viðkomandi nám sé lánshæft hjá Lánasjóði ísl. námsmanna. Þess vegna hef ég leyft mér að bera fram fsp. á þskj. 645 til hæstv. menntmrh. um endurskoðun laga um Lánasjóð ísl. námsmanna og hljóðar fsp. svo, með leyfi forseta:
    ,,Mun ráðherra beita sér fyrir breytingum á lögum um Lánasjóð ísl. námsmanna í tengslum við fyrirhugaðar breytingar á menntastefnu þannig að lögin samræmist þeim nýjungum?``