Ráðstafanir til að sporna við ólæsi

126. fundur
Fimmtudaginn 11. mars 1993, kl. 12:36:26 (5937)

     Fyrirspyrjandi (Gunnlaugur Stefánsson) :
    Virðulegi forseti. Ég vissi ekki um að þær voru ástæður að dagskrá hefði verið breytt, en ég hef leyft mér að bera fram fsp. til hæstv. menntmrh. sem hljóðar svo:
    ,,Eru í undirbúningi sérstakar ráðstafanir til þess að sporna gegn vaxandi ólæsi á meðal barna og unglinga og í hverju yrðu slíkar ráðstafanir fólgnar?``
    Ég held að flestir séu sammála um að ólæsi á meðal barna og unglinga fari vaxandi. Um það má m.a. lesa í greinum fræðimanna að þeir hafi áhyggjur af að svo sé og það komi m.a. fram í minnkandi bókhneigð ungmenna. Það er ekki gott ef sú er þróunin af annars ágætu skólakerfi að ólæsi sé vaxandi á meðal barna og unglinga. Nú veit ég vel að skólakerfið ber ekki eitt og sér ábyrgð á lestrarkunnáttu barna og unglinga. Þvert á móti. Heimilin bera þar mjög mikla ábyrgð líka og ekki minni en skólakerfið sjálft.
    Ég tel því mjög brýnt að þetta mál sé tekið upp á Alþingi og að hæstv. ráðherra megi um það segja og svara hvort einhverjar ráðstafanir séu annaðhvort hafnar eða verið að undirbúa ráðstafanir sem sporni gegn þessum vaxandi vanda.