Skuldastaða heimilanna

126. fundur
Fimmtudaginn 11. mars 1993, kl. 13:19:54 (5957)

     Ingibjörg Pálmadóttir :
    Virðulegi forseti. Svör hæstv. félmrh. vöktu undrun, vonbrigði og reiði vegna þess að hæstv. félmrh. er ekki að svara spurningunni, heldur aðeins hluta spurningarinnar. Hv. þm. Össur Skarphéðinsson var undrandi á því að hæstv. félmrh. væri spurður. Er það ekki rétt skilið hjá mér að hæstv. félmrh. sé ráðherra atvinnumála í landinu og heldur hv. þm. virkilega að það haldist ekki í hendur atvinnuástandið og fjárhagsstaða heimilanna? Það er ekki hægt að taka þetta tvennt úr samhengi.
    Um leið og vinnan minnkar hjá fólki, þá eykst kostnaður í allri almennri þjónustu. Hvað hefur hækkunin orðið mikil í heilbrigðisþjónustunni? Hún hefur komið mörgum heimilum afar illa. Það eru ekki bara húsnæðismálin, hæstv. félmrh. Það eru allir þeir miklu skattar og álögur sem verið verið að leggja á heimilin í landinu sem verður að líta á líka.