Evrópuráðsþingið

127. fundur
Fimmtudaginn 11. mars 1993, kl. 15:45:14 (5982)

     Björn Bjarnason :
    Frú forseti. Mér finnst sjálfsagt að athuga þá tillögu hv. síðasta ræðumanns að fulltrúar Alþingis í hinum ýmsu Íslandsdeildum í alþjóðasamstarfi þingsins ráðgist meira heldur en gert hefur verið og væri hægt að kanna hvernig að slíku samráði yrði staðið.
    Þar sem hv. ræðumaður spurði um afstöðu Íslandsdeildarinnar til hinna einstöku mála þá finnst mér rétt að árétta þá skipan sem er á þessu starfi. Íslandsdeildin kemur fram í sumum málum varðandi þátttöku Íslands í Evrópuráðsþinginu en á þinginu sjálfu starfa þingmenn í þingflokkum og deildin leysist kannski upp eftir pólitískum sjónarmiðum þannig að það er ekki alltaf unnt að tala um að Íslandsdeildin hafi mótað sér afstöðu til hinna einstöku mála og ekki eðlilegt að hún geri það heldur er þessi afstaða mótuð innan þingflokkanna á þinginu sjálfu og deildin sem slík tekur ekki afstöðu til mála nema um þau sem sérstaklega snerta Ísland.
    Það má náttúrlega segja að spurning um stærð Evrópuráðsins sé málefni sem snerti Ísland en þá er tekin afstaða til þess af íslenskum stjórnvöldum í ráðherranefnd Evrópuráðsins sem einnig þarf að taka ákvarðanir um þessi efni, en í þinginu koma þingmenn frekar fram sem fulltrúar ákveðinna pólitískra sjónarmiða heldur en Íslandsdeildarinnar sem slíkrar.
    Það liggja fyrir mismunandi viðhorf varðandi stækkun ráðsins austur á bóginn eftir því hvort að menn eru í þinginu eða í ráðherranefndinni. Ég held að þarna sé ágreiningur á milli kannski að einhverju leyti og málið hefur ekki verið rætt til þrautar á þinginu og Íslandsdeildin hefur ekki gert upp sinn hug og þingið sjálft hefur ekki gert upp sinn hug í þessu máli. Það hafa legið fyrir hugmyndir um að draga mörkin t.d. við Úralfjöll og þaðan í suður. Varðandi Rússland er alveg ljóst að rannsóknir á því hvort Rússland yrði tækt í þessi samtök eru rétt að fara af stað og þróunin í Rússlandi lofar því miður ekki góðu um að þar þróist endilega á næstunni þeir stjórnarhættir að landið verði gjaldgengt í samtökin. Það er alveg ljóst t.d. að það er fyrst eftir kosningar í Eystrasaltsríkjunum sem þau ríki eru gjaldgeng og enn hefur ekki verið kosið í Lettlandi með þeim hætti að ráðið telji að það sé viðunandi og enn lengra virðist slíkt eiga í land í Rússlandi.
    Einnig er það náttúrlega spurning sem hv. ræðumaður vísaði til hvort Rússland kemur yfirleitt þarna inn. Það getur enginn svarað því. Rússar hafa sótt um en það eru mörg sjónarmið sem geta komið upp á þeirri leið. Það er fjölmenn rússnesk sendinefnd núna sem gestanefnd á þinginu. Þeir láta töluvert að sér kveða en umræður um þátttöku Rússlands í Evrópuráðinu eru tiltölulega skammt á veg komnar. Íslandsdeildin hefur ekki gert upp hug sinn í þessu og spurning er hvort hún geri það. Það getur vel verið að það komi síðan til kasta Alþingis sjálfs að gera það í sambandi við umræður um málefni ráðsins ef einhverjar breytingar verða á stofnskrá þess eða samþykktum. Eins og við vitum þá er stofnskráin fullgilt á grundvelli ályktunar Alþingis og nú er unnið að því að undirbúa lögfestingu Mannréttindasáttamálans þannig að það kann að vera að Alþingi sem slíkt komi meira að málefnum er varða Evrópuráðið heldur en það hefur gert um nokkurt skeið.
    Varðandi Vestur-Evrópusambandið þá finnst mér ástæðulaust að setja hér á umræður um það. Það mun koma fram, eins og var heitið í nóvember, till. til þál. um aðild Íslands að Vestur-Evrópusambandinu og ég held að það sé frekar tímaspursmál en nokkuð annað hvenær hún kemur hér fram.
    Varðandi sjávarspendýrin þá vil ég láta það koma fram að það var ekki að frumkvæði Íslendinga sem þetta mál kom upp með þeim hætti sem það er nú til umræðu. Hins vegar var unnt að haga málum þannig að Íslendingar koma verulega að málinu og vonandi verður það niðurstöðunni til góðs á þinginu. En auðvitað getur ekkert okkar sagt um það hver sú niðurstaða verður á þessu stigi en undirbúningsvinnan lofar góðu fyrir málstað þeirra sem telja að það eigi að vera réttur þjóða að nýta sjávarspendýr eins og önnur dýr sjávar.
    Um kjarnorkumálin vil ég aðeins vísa til þess sem ég sagði hér áður. Það er mál sem Íslandsdeildin tekur í sjálfu sér ekki afstöðu til. Það gera einstakir þingmenn. Það hafa verið bornar upp tillögur og ég hvet hv. 4. þm. Austurl. til þess að kynna sér þær tillögur sem þegar hafa verið samþykktar á Evrópuráðsþinginu um þessi mál og þær ítarlegu greinargerðir sem þar hafa verið lagðar fram varðandi kjarnorkumálin. Það hafa verið samdar mjög greinargóðar skýrslur um þau mál og tillögur samþykktar og ályktanir um þau efni nú þegar þannig að þingmaðurinn hefði þar góðan fróðleiksbrunn að ausa úr ef hann vill kynna sér einstök atriði varðandi þau málefni sem hann gerði hér að umtalsefni.
    Ég þakka þingmanninum ábendinguna varðandi ráðstefnuna í Palanga. Að sjálfsögðu átti orðalagið ekki að vera í framtíð því að þessi ráðstefna var á síðasta ári.