Almannatryggingar

127. fundur
Fimmtudaginn 11. mars 1993, kl. 17:04:18 (5989)

     Finnur Ingólfsson :

    Virðulegi forseti. Það kom fram hjá hv. 1. flm. þessa máls í upphafi að þetta mál er búið að liggja lengi hér í þinginu og þær breytingar sem það gerði ráð fyrir hafa gengið eftir með þeim hætti þó að þær hafa gengið í þveröfuga átt við það sem flm. vildu fara en ríkisstjórnin hefur vanalega farið allt, allt aðra leið. Sú leið sem ríkisstjórnin valdi að fara um síðustu áramót þegar gerð var breyting á meðlagi, barnalífeyri og mæðra- og feðralaunum, hafði auðvitað mjög mikil áhrif á kjör einstæðra foreldra og sérstaklega á kjör framfærenda barnsins, en einnig líka þess sem á að greiða meðlagið. Í 1. gr. þessa frv., sem er 268. mál á þskj. 359, finnst mér að mörgu leyti vera valin skynsamleg leið til þess að finna út hver þessi upphæð á að vera, hver árlegur barnalífeyrir á að vera og hvert árlegt meðlag á að vera.
    Það má endalaust deila um það og hægt að gera hverja könnunina á fætur annarri í þá veru að leita eftir hvað sé sanngjarnt í þeim efnum, en sú leið sem hér er bent á að farin skuli er að mörgu leyti skynsamleg og ég get tekið undir. Ég er ekki í nokkrum vafa um að það er mjög mikil þörf á því að hækka meðlag og barnalífeyri frá því sem það var og menn verða reyndar að líta á mæðra- og feðralaunin og meðlagið sem eitt og hið sama í raun og veru vegna þess að hvort tveggja er aðstoð við einstæða foreldra, því staðreyndin er sú að mikil þörf var á því að hækka þessar upphæðir frá því sem verið hefur, hvort sem menn líta á það fyrir breytinguna sem varð um áramótin eða eftir, enda varð um verulega skerðingu að ræða hjá þessum hópi eftir breytingu ríkisstjórnarinnar um síðustu áramót þannig að þörfin er mikil en ríkisstjórnin eins og ég sagði áðan hefur gengið í þveröfuga átt.
    Aðeins til að rifja upp þær breytingar sem gerðar voru á meðlagi, barnalífeyri og mæðra- og ferðalaunum um síðustu áramót, í stað þess að reyna að bæta kjör einstæðra foreldra, þá voru kjör einstæðs foreldris með eitt barn skert um 9.750 kr. á ári eða 983 kr. á mánuði. Fyrir tvö börn var þessi skerðing upp á 22.800 kr. á ári, með þremur börnum upp á 35.328 kr. Þ.e. þó svo meðlagið hafi verið hækkað í 10.300 kr. úr 7.551, þá voru mæðra- og feðralaun lækkuð þar á móti. Hins vegar er miklu eðlilegra, að mér finnst, þegar menn eru að tala um hver þessi skerðing hafi orðið um síðustu áramót og hvaða áhrif þær breytingar sem ríkisstjórnin beitti sér fyrir hafi haft á einstæða foreldra að líta á framfærendur barnsins sem þá eru bæði forræðisaðilinn og eins meðlagsgreiðandinn vegna þess að staðreyndin er sú að það eru auðvitað báðir þessir aðilar sem taka þátt í framfærslu barnsins, þó með mjög mismunandi hætti. Það er reyndar staðreynd. Framfærandinn, þ.e. forræðisaðilinn, verður óhjákvæmilega fyrir meiri útgjöldum eða hefur a.m.k. orðið óhjákvæmilega fyrir meiri útgjöldum en meðlagsgreiðandinn. Ég held að það sé ekki nokkur vafi á í þeim efnum og menn þurfi nú lítið að deila um það. Hins vegar er það svo að oft og tíðum þegar forræði er úrskurðað, þá gera foreldrar barnsins með sér samkomulag um það með hvaða hætti meðlagsgreiðandinn hugsanlega geti tekið átt í ýmsum kostnaði er tengist framfærslu barnsins. Það er vitað um marga slíka samninga, kostnaður við fermingu, afmælisgjafir, jólagjafir eða hvað eina, við skólagöngu og þar fram eftir götunum. Hins vegar þegar meðlagið er hækkað eins og gert var nú um síðustu áramót, þá setur það auðvitað meðlagsgreiðendur í talsvert mikla erfiðleika. Og hættan er auðvitað sú að við þessa breytingu falli slíkir samningar, sem voru í gildi um þátttöku meðlagsgreiðandans í framfærslu barnsins umfram það sem meðlagið gerir ráð fyrir, brott og þess vegna verði skerðingin nú langtilfinnanlegust fyrir barnið sjálft. Hins vegar þegar þetta er skoðað saman, hver skerðing framfæranda barnsins eða framfærendanna hafi verið og lítum á þetta fyrir eitt barn, þá er það skerðing fyrir þessa framfærendur upp á 44.784 kr. á ári með einu barni, með tveimur börnum upp á 88.776 og með þremur börnum upp á 134.292 kr. Þetta verður einnig til þess, og það var staðfest í þeirri umræðu sem hér fór fram í desember, að vanskil við Innheimtustofnun sveitarfélaga munu aukast mjög verulega. Innheimtustofnun gerði ráð fyrir því að hugsanlega gætu vanskil hækkað úr 265 millj. kr. upp í 600 millj. kr. á ári. Það hefði lent á Jöfnunarsjóði og til þess að tryggja að svo færi ekki, þá gerði ríkisstjórnin samning við Samband ísl. sveitarfélaga um það að ríkisstjórnin bæri ábyrgð á öllum þeim milljónum sem færu umfram 300 millj. kr. Það er hins vegar hvergi gert ráð fyrir neinu slíku í fjárlögum þannig að ég veit í raun og veru ekki á hverju ríkisstjórnin byggir þá ábyrgð sína sem hún hét Sambandi ísl. sveitarfélaga á sínum tíma. Það er ekki gert ráð fyrir ábyrgðinni eða heimild til þess í 6. gr. Það er ekki heldur gert ráð fyrir neinum beinum fjárframlögum á fjárlögum til þess að mæta þessari hugsanlegu ábyrgð sem þarna mun verða. Og af því að hæstv. heilbrrh. er nú staddur hér í salnum þá væri fróðlegt að fá að heyra það frá honum hvort hann vissi til að vanskil hefðu aukist við Innheimtustofnunina við þessa breytingu sem gengin er í gildi þó að reynslutími sé reyndar skammur.
    Ég get tekið undir það sem felst í 1. gr. og einu grein þessa frv. felst, fyrir utan 2. gr., þar sem gert er ráð fyrir að lögin öðlist þegar gildi og að frv. verði skoðað nánar í heilbr.- og trn., og mun gera það með opnum huga þar, en efnislega get ég tekið undir hana og er sáttur við hana.