Sóttvarnalög

127. fundur
Fimmtudaginn 11. mars 1993, kl. 17:58:19 (5999)

     Ingibjörg Sólrún Gísladóttir :
    Virðulegur forseti. Ég gerði þetta frv. allítarlega að umtalsefni þegar það var síðast lagt fram á þingi og ætla ekki að endurtaka alla þá umræðu núna. Það er hægt að líta í Alþingistíðindin og sjá hvað ég hafði þar fram að færa og ég mun að sjálfsögðu koma því á framfæri í heilbr.- og trn. þingsins. Ég vil hins vegar benda á það og ítreka það sem ég sagði þá að mér finnst það dálítið undarlegt að nánast eingöngu læknar komi að samningu þessa frv. en ekki annað hjúkrunarstarfsfólk. Að vísu kom að frv. Dögg Pálsdóttir úr heilbrrn. en að öðru leyti eru það eingöngu læknar, það eru engir hjúkrunarfræðingar eða fólk sem vinnur að umönnun þeirra sem haldnir eru smitsjúkdómum. Þetta finnst mér galli og ég sé að hver nefndin á fætur annarri hefur verið skipuð til þess að fjalla um þessi mál og þær eru allar þessu sama marki brenndar.
    Í 6. gr. frv. er gert ráð fyrir að stofnað verði sóttvarnaráð og í því sýnist mér líka að eingöngu sé gert ráð fyrir læknum, en ekki t.d. eins og ég hef bent á áður hjúkrunarfræðing eða þá félagsráðgjafa sem eru fólk sem hefur auðvitað miklu hlutverki að gegna í því að koma í veg fyrir smitsjúkdóma og eru auðvitað á sinn máta sérfræðingar í því. Ekki síst núna þegar við erum að tala um nýja smitsjúkdóma eins og eyðni þá held ég að hlutverk hjúkrunarfræðinga og félagsráðgjafa aukist.
    Þá vil ég enn og aftur ítreka það sem ég sagði hér síðast varðandi 14. og 15. gr. þessa frv. þar sem er verið að fjalla um aðgerðir vegna hættu á útbreiðslu smits frá einstaklingum. Ég óttast að þær greinar eins og þær eru þarna geti að vissu leyti skapað réttaróvissu og í rauninni felst ákveðin mannréttindaskerðing í þessum greinum eins og framkvæma á nauðungarinnlögn. Í 15. gr. segir:
    ,,Ef maður, haldinn smitsjúkdómi, fellst ekki á að fylgja reglum um umgengni við aðra eða rökstuddur grunur er um að hann hafi ekki fylgt slíkum reglum getur sóttvarnalæknir ákveðið að hann skuli lagður inn á sjúkrahús í einangrun eða að hann skuli einangraður með öðrum hætti. Um þessa dvöl skulu gilda ákvæði lögræðislaga, nr. 68 30. maí 1984, sbr. 3. mgr. 13. gr.
     Þurfi einangrun að vara lengur en 15 daga skal gera kröfu fyrir dómi um sjálfræðissviptingu, sbr. 19. gr. lögræðislaga.``
    Nú er það svo að í lögræðislögum er kveðið mjög skýrt á um það í hvaða tilvikum hægt sé að svipta einstakling frelsi sínu og sjálfræði. Það er eingöngu samkvæmt þeim lögum ef um geðsýki er að ræða eða um mikla neyslu ávana- eða fíkniefna. Með öðrum orðum er gengið út frá því að einstaklingurinn sé í raun ekki sjálfum sér ráðandi vegna geðsjúkdóma eða fíkniefnaneyslu og þá megi taka af honum ráðin, hann sé í rauninni búinn að missa þau. Þeir einir geta samkvæmt lögræðislögunum lagt fram beiðni um nauðungarvist sem eru tengdir sjúklingnum eða einstaklingnum með þeim hætti að þar er um að ræða maka, ættingja, lögráðamann eða félagsmálastofnun. Skýrt er kveðið á um þetta í 14.--17. gr. lögræðislaganna og þar kemur hvergi fram að smitsjúkdómur geti verið orsök nauðungarinnlagnar eða að læknir geti átt frumkvæði að nauðungarinnlögn. Nú er ég ekki að segja að það geti ekki verið full ástæða til þess að koma hlutum þannig fyrir, við vitum það vel að það geta komið upp tilvik og það hafa komið upp tilvik þar sem smitaður einstaklingur hagar sér á mjög óábyrgan máta og það getur verið að það þurfi að vera einhvers staðar heimild til þess að taka á því. En þá á líka að taka á lögræðislögunum. Það á ekki að vera hægt í einstökum lögum eins og sóttvarnalögunum að takmarka frelsi fólks eða í rauninni stuðla að frelsissviptingu án þess að það sé tekið á því í lögræðislögunum. Það hefur verið mitt sjónarmið. Ég er auðvitað alveg fús að ræða það og mun sjálfsagt ræða það ítarlega í heilbr.- og trn. en mér finnst þetta vissulega hættulegt fyrir réttaröryggið að hægt sé í einstökum lögum eins og sóttvarnalögunum að kveða á um frelsissviptingu einstaklinganna. Ef menn vilja koma á slíkum ráðstöfunum þá held ég að þeir verði fara í lögræðislögin. Ég sé enga ástæðu til annars en það sé þá gert. Þetta vil ég að komi skýrt fram og ég mun leggja á það áherslu í heilbr.- og trn. að fá ítarlega umræðu um þennan þátt málsins.