Dýravernd

127. fundur
Fimmtudaginn 11. mars 1993, kl. 18:33:42 (6011)

     Umhverfisráðherra (Eiður Guðnason) :
    Virðulegi forseti. Ég vil fyrst af öllu þakka þeim þingmönnum sem tekið hafa þátt í umræðunni mjög jákvæðar undirtektir við meginefni þessa frv. Það hafa ekki komið fram í rauninni mjög margar athugasemdir sem ástæða er til að svara. Þó vil ég nefna það að hv. þm. Hjörleifur Guttormsson spurði í ágætri ræðu hvort í ráðuneytinu væri í gangi undirbúningur almennrar löggjafar um líftæknisviðið. Því er til að svara að þar er unnið að gerð frv. um það sem nefnt hefur verið erfðabreyttar lífverur og það frv. verður væntanlega lagt fram hér síðar á þessu þingi.
    Ég get tekið undir mjög margt af því sem kom fram í ræðu hv. þm. eins og það að breytingin á hrossaeign og hrossabúskap hér í landinu kallar auðvitað á athugun á því máli og endurmat. Ég er honum sammála um það.
    Hv. þm. Pálmi Jónsson vék nokkuð að því, og það gerði raunar síðasti ræðumaður líka, að þessi mál og þær reglur sem verið er að setja sköruðust við aðra löggjöf og eins og umhverfismálin gera á öllum sviðum. En því er þá til að svara varðandi það sem hv. þm. Pálmi Jónsson vék að um reglur og lög á verksviði landbrn. að við undirbúning þessa frv. var haft fullt samráð við lögfræðing landbrn. og yfirdýralækni og þá var sérstaklega athuguð skörun við önnur lög, m.a. sem varða búfé og voru þá gerðar nokkrar breytingar á frv.
    Hv. þm. Kristín Ástgeirsdóttir spurði hvað menn vita um aðbúnað dýra hér og hvernig ástandið væri. Því er til að svara að það hefur engin sérstök úttekt farið fram á því. Hins vegar held ég að í okkar þjóðfélagi eins og það er gert og ekki stærra en það er, þá komist slík mál fljótlega í hámæli. Mér hefur sýnst það a.m.k. ef um er að ræða illan aðbúnað eða illa meðferð á dýrum og m.a. hafa fjölmiðlar verið sérstaklega vel vakandi oft á því sviði og raunar almenningur allur. Ég skal ekki um það dæma, útiloka það ekkert að það væri ástæða til að kanna þetta sérstaklega, en sé þó ekkert sem bendir til þess að nauðsyn þess sé mjög knýjandi.

    Varðandi framkvæmd laganna beini ég því til hv. þm. að lesa sérstaklega 20. gr. og athugasemdir og skýringar við hana. Það er auðvitað meginbreyting að nú er ætlunin að koma upp dýraverndarnefndum í öllum umdæmum héraðsdómstóla og dýraverndarráði. Um þetta hefur verið gott samkomulag í undirbúningi og aðdraganda þessa máls. Það er eitt atriði þar sem var ekki fullt samkomulag um. Sú skoðun var uppi að fulltrúar dýraverndarnefndar eða löggæslumanni eða héraðsdýralækni ætti að vera heimilt að fara inn í íbúðarhúsnæði án samþykkis húsráðenda og án þess að hafa fengið dómsúrskurð eins og gert er í öðrum málum. Ég gat ekki fellt mig það að slík heimild væri hér í þessum lögum vegna þess að ég taldi það ekki eðlilegt.
    Ég sé ekki ástæðu til, virðulegi forseti, að hafa um þetta öllu fleiri orð en ítreka þakkir til þeirra þingmanna sem hér hafa talað og allir hafa tekið jákvætt undir meginefni málsins. Ég held að það skipti mjög miklu máli að við tökum nú til hendinni hér á hinu háa Alþingi og samþykkjum ný lög um dýravernd. Það er tímabært og ég veit að hv. umhvn. sem fær þetta mál til meðferðar mun gaumgæfa það. Auðvitað er það hér eins og annars staðar, að hér eru álitamál sem mönnum getur sýnst sitt hvað um, en í heild heyrist mér þó að menn séu í stórum dráttum sammála um öll meginatriði málsins.