Umhverfisskattar

127. fundur
Fimmtudaginn 11. mars 1993, kl. 19:11:06 (6021)


     Hjörleifur Guttormsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Ég vildi nú ekki í mínu máli áðan að vera sérstaklega að skerpa andstæðurnar í sambandi við mat á málum. En ég verð að segja það að eftir að hafa heyrt aðra ræðu hv. flm., þá finnst mér nú sannarlega vera holt undir þessum málflutningi og þessari tillögugerð. Ég skil það vel að einstakir þingmenn Sjálfstfl. komi með tillögu sem veki upp einhverjar vonir hjá fólki að það létti á annarri skattheimtu eins og málin hafa gengið fram undir forustu Sjálfstfl. í sambandi við ríkisfjármál og skattheimtu. Það hefðu verið tíðindi ef allur Sjálfstfl. hefði verið með á þessari tillögu, fjmrh. meðtalinn. Það væru nokkur tíðindi. En ég vil nú spyrja hv. flm., sem ég veit ekki betur en sé stuðningsmaður samnings um Evrópskt efnahagssvæði, hvernig hann haldi að það gengi nú að taka upp þá stefnu sem hér er verið að boða miðað við ákvæði þess samnings. Heldur flm. að það séu í rauninni heimildir fyrir því að taka upp skattlagningu með þeim hætti sem hér er verið að gera ráð fyrir út frá ákvæðum EES-samningsins? Ég held að það þurfi ekki langt að leita til þess að átta sig á því að það muni fljótt mæta andspyrnu og ná skammt

að ætla að framfylgja slíkri stefnu miðað við þann samning. Hitt er annað mál að skilagjöld á vörur, afgang og þess háttar virkar með öðrum hætti heldur en hér er gert ráð fyrir.