Umhverfisskattar

129. fundur
Þriðjudaginn 16. mars 1993, kl. 13:37:42 (6062)

     Geir H. Haarde (um atkvæðagreiðslu) :
    Virðulegi forseti. Ég hlýt að leiðrétta hv. síðasta þingmann. Eins og þeir muna sem hér voru í þingsalnum í gær, þá var það hv. 2. þm. Vestf., Ólafur Þ. Þórðarson, sem benti á það úr sal að sennilega ætti þetta mál betur heima í annarri nefnd en umhvn. og að athuguðu máli var það að mínum dómi rétt ábending frá honum. Þetta mál snýst um það með hvaða hætti beita megi sköttum og gjöldum til að ná tilteknum markmiðum í umhverfismálum. Þetta er skattamál sem skírskotar til þátta á umhverfissviðinu og það er nákvæmlega hárrétt tillaga sem flm. hefur nú komið hér með um það að vísa þessu til efh.- og viðskn. sem síðan leiti umsagnar umhvn. Það er mjög eðlileg og rétt málsmeðferð í þessu tilviki.