Samvinnufélög

129. fundur
Þriðjudaginn 16. mars 1993, kl. 14:44:52 (6092)

     Jóhannes Geir Sigurgeirsson :
    Virðulegur forseti. Ég vil fagna því að þetta frv. er komið fram og treysti því að á grundvelli þess megi finna innlánsdeildum samvinnufélaganna stað í fjármálakerfi okkar á næstu árum. Það er rétt sem ráðherra nefndi hér að innlánsdeildirnar hafa gegnt mikilvægu hlutverki í þessu rekstrar- og félagsformi þó að það sé kannski ekki eins stórt í dag og það var þegar best lét.
    Það er einnig rétt hjá hæstv. ráðherra að það má leiða að því líkur að B-deildir samvinnufélaganna muni að einhverju leyti geta komið í stað innlánsdeildanna, en þó að mínu mati ekki að öllu leyti. Ég er þeirrar skoðunar að þetta form hafi á umliðnum árum í langsamlega flestum tilfellum verið báðum aðilum hagstætt, þeim sem trúðu viðkomandi samvinnufélagi fyrir sínum fjármunum og félaginu þó að það hafi getað greitt fyrir það fyllilega sambærilega vexti við það sem aðrir hafa gert, þrátt fyrir það hafa þetta verið ódýrari peningar, því að á þá hefur ekki fallið vaxtamunur eins og hefði verið ef það hefði farið í gegnum aðrar lánastofnanir.
    Ég ætla ekki að gera athugasemdir við einstaka liði frv. Ég hef tækifæri til þess í nefndinni. Ég get tekið undir það með hæstv. ráðherra að það er mjög æskilegt að takist að ganga frá þessu á vorþinginu núna og eyða þeirri óvissu sem hefur verið um framtíð innlánsdeildanna.
    Að lokum, virðilegi forseti, svona rétt til að menn átti sig á hvað þessar innlánsdeildir eru þó stórar, þá eru í þeim samtals 2.176 millj. kr. eða 2,1 milljarður kr. og það er af um 450 milljarða kr. peningalegum sparnaði í okkar þjóðfélagi. Og ef við tökum bankakerfið sem heild, þá eru það, ef ég man rétt, eitthvað í kringum 150 milljarðar kr. sem eru í bönkunum þannig að þetta eru þó umtalsverðir fjármunir.