Eiginfjárstaða innlánsstofnana

131. fundur
Miðvikudaginn 17. mars 1993, kl. 17:26:07 (6115)

     Jóhannes Geir Sigurgeirsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Hæstv. viðskrh. vék hér að einni af þeim spurningum sem ég bar fram. Hann svaraði því hins vegar ekki hvort hann væri tilbúinn til þess að beita sér fyrir því að þær heimildir sem væru til Tryggingarsjóðs bankanna væru bundnar eingöngu við þann milljarð sem á að fara í Landsbankann núna. Ég tel að það sé afar mikilvægt ef á að nást samstaða um málið að það verði gert.
    Hæstv. ráðherra svaraði heldur engu um málsmeðferðina í gær. Ég gerði tilraun til þess að hann gæti þvegið hendur sínar af því að hann hefði sagt bankastjórum Landsbankans ósatt hér í gær. Það er mín skoðun að hæstv. forsrh. hafi tekið völdin af viðskrh. í málinu seinni partinn í gær og ég vænti þess að hæstv. ráðherra greini okkur frá því hér í seinna andsvari hvað það var sem honum og bankastjóra Landsbankans fór á milli á þeirra fundi í gærmorgun.