Eiginfjárstaða innlánsstofnana

131. fundur
Miðvikudaginn 17. mars 1993, kl. 18:16:09 (6121)

     Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Menn, sem geta hlustað á ræðu eins og þessa lengi dags, hafa sæmilegar taugar. Ég gat ekki hlustað á nema hluta af henni en var það nóg samt. Þessi ágæti hv. þm. sem talaði sagði mjög margt sérkennilegt og var margur ruglandinn í ræðu hans. M.a. sagði þessi hv. þm. að Landsbankinn yrði að borga herkostnaðinn af því að eigið fé hans yrði aukið um tæpa 4,5 milljarða. Síðan sagði þessi hv. þm. líka, og það var mjög merkilegt, að aðgerð eins og þá að auka eigið fé bankans um tæpa 4,5 milljarða ætti að gerast í kyrrþey. Ég bið þingmanninn að skýra út fyrir mér hvernig hann mundi auka eigið fé Landsbankans um 4,5 milljarða í kyrrþey.