Eiginfjárstaða innlánsstofnana

131. fundur
Miðvikudaginn 17. mars 1993, kl. 18:19:18 (6123)

     Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Auðvitað gat ekki hv. þm. rökstutt að þetta hefði átt að gerast í kyrrþey svo fráleitt var það sem hv. þm. hélt fram áðan. Málið var afgreitt með þeim hætti sem var mjög skipulegur og góður þannig að málið var tekið fyrir á ríkisstjórnarfundi sem hófst klukkan fjögur þann dag eftir að bankanum var lokað, aðgerðinni var lokið af hálfu ríkisstjórnar fyrir klukkan sjö þann dag. Það er afskaplega mikilvægt og það ættu menn að vita, ekki síst menn sem hafa verið ráðherrar --- reyndar talaði hann ekki eins og hann hefði nokkurn tímann verið ráðherra --- að það er afskaplega mikilvægt að ákvörðun sem hefur verið undirbúin vandlega sé ekki í umfjöllun fjölmiðla fyrr en komið er að ákvörðun hennar. Reyndar var sá fyrsti sem fjallaði um málið opinberlega maður sem fjallaði um það klukkutíma fyrir ríkisstjórnarfundinn í fjölmiðlum. Það segir hér að hv. þm. Steingrímur Hermannsson byrji að fjalla um þetta mál opinberlega í útvarpsviðtali kl. 3, áður en ríkisstjórnin kom til fundar. Á Bylgjunni var sagt, með leyfi forseta: ,,Steingrímur Hermannsson segir að það sé kannski of djúpt í árinni tekið að segja að Landsbankinn sé á barmi gjaldþrots.`` Það sé kannski of djúpt í árinni tekið. Þetta er ekki óábyrgt tal af hálfu ríkisstjórnar. Þetta er gert klukkutíma áður en ríkisstjórnin kemur saman til að ganga frá máli sínu. Enginn vafi er á því að ríkisstjórnin hefur tekið mjög fast, ákveðið og örugglega á málinu og það hefur styrkt stöðu Landsbankans. Það hefði á hinn bóginn veikt stöðu Landsbankans ef fram hefði komið að endurskoðandi bankans og ríkisendurskoðandi hefðu ekki treyst sér til að árita reikninga bankans með þeim afskriftatölum sem bankinn gerði ráð fyrir. Það hefði veikt bankann út á við. Allt annað tal um þessar aðgerðir er gersamlega út í hött og það sýnir manni það að þeir ágætu þingmenn, sem hér hafa talað, eru óviðbúnir ákvörðun af þessu tagi og þeir hrökkva af hjörum þegar ákvörðun af þessu tagi kemur og taka skakkan pól í hæðina eins og þessir hv. þm. hafa gert.