Eiginfjárstaða innlánsstofnana

131. fundur
Miðvikudaginn 17. mars 1993, kl. 18:33:13 (6128)

     Ólafur Ragnar Grímsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það er margt athyglisvert sem þingmaðurinn sagði um þróun vaxta og lánamála á undanförnum árum og ég er alveg reiðubúinn að ræða það við þetta tækifæri eða annað. Við hljótum auðvitað öll að draga vissar ályktanir af þeirri reynslu og efasemdir um það kerfi sem verið hefur í gildi. Má ég í því sambandi minna á að í tíð síðustu ríkisstjórnar voru lögð ákveðin drög að því að afnema lánskjaravísitöluna þegar verðbólgan hefði verið undir ákveðnum mörkum um ákveðinn tíma og er nú langt um liðið síðan hún fór að vera viðvarandi undir þeim mörkum. Það er því enginn ágreiningur milli mín og hv. þm. um það að í ljósi þess verðlagsstöðugleika sem hér hefur verið um nokkuð langt árabil, a.m.k. í ein þrjú ár, er fyllilega tilefni til þess að rjúfa þá tengingu sem sett var í Ólafslög á sínum tíma. Hitt er svo annað mál að þegar verið er að stofna bankakerfi landsins í hættu eins og gert er með þessum aðgerðum kann vel að vera að menn vilji viðhalda þessu tryggingakerfi vegna þess óöryggis sem skapast hefur í bankakerfinu.
    Ég bar hins vegar fram ákveðna spurningu til hv. þm. um það hvort hann hefði kynnt ráðherrum ríkisstjórnarinnar hugmyndir sínar um það hvernig hefði átt að taka á þessum vanda sem að ýmsu leyti eru svipaðar og þær hugmyndir sem við einstakir þingmenn annarra flokka höfum sett fram hér í dag. Það sýnir mér einfaldlega að þegar sá eini þingmaður stjórnarliðsins, sem hefur treyst sér til þess að tala í umræðunni, kemur með hugmyndir af þessu tagi hefði verið skynsamlegra að hafa víðtækt samráð milli þingmanna og flokka en láta þennan æðibunugang ráða ferðinni. Það er greinilegt af frammíköllum hæstv. forsrh. hér á síðustu mínútum að hann er mjög vanstilltur í umræðunni.